Montpellier og Saint-Etienne sitja í neðstu tveimur sætum frönsku deildarinnar og leikur gærdagsins því gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið.
Gestirnir í Saint-Etienne náðu forystunni snemma leiks og bættu öðru marki við snemma í síðari hálfleik, þrátt fyrir að vera orðnir manni færri eftir að varnarmaður liðsins hafði fengið að líta beint rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks.
Stuðningsmenn heimamanna voru allt annað en sáttir við stöðu sinna manna og kveiktu í blysum í stúkunni. Einhverjum af blysunum var svo kastað inn á völlinn og þá kviknaði í hluta stúkunnar.
¡Montpellier vs Saint Etienne, SUSPENDIDO! 🚨
— ESPN.com.mx (@ESPNmx) March 16, 2025
El duelo de Ligue 1 fue interrumpido a los 57 minutos por el lanzamiento de bengalas y bombas de humo sobre el terreno de juego y hacia las gradas por parte de los seguidores locales. Más tarde, las autoridades decidieron suspenderlo… pic.twitter.com/XxjY1jOKo4
Atvikið átti sér stað eftir um klukkutíma leik og dómari leiksins átti engra kosta völ nema að stöðva leikinn.
Upphaflega var leikurinn aðeins stöðvaður í þrjár mínútur, en síðar var ákveðið að stöðva leikinn í tuttugu mínútur. Að lokum var leikurinn svo blásinn af.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem óspektir stuðningsmanna Montpellier verða til þess að stöðva þurfi leik í frönsku deildinni. Í október árið 2023 var leik liðsins gegn Clermont hætt eftir að flugeldur sprakk við hliðina á markverði Clermont.