Erlendir fjölmiðlar segja Dequenne hafa látist af völdum krabbameins, en hún greindist með sjaldgæfa tegund af krabbameini í nýrnahettum haustið 2023.
Leikkonan sló í gegn sautján ára gömul fyrir hlutverk sitt í myndinni Rosetta frá árinu 1999. Um var að ræða fyrsta kvikmyndahlutverk hennar, en það voru bræðurnir Luc og Jean-Pierre Dardenne sem leikstýrðu myndinni sem fjallar um unglingsstúlkuna Rosettu sem býr við bágar aðstæður með móður sinni sem glímir við áfengisfíkn.
Myndin vann Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes og hlaut Dequenne sömuleiðis verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki á sömu hátíð.
Dequenne, sem var fædd 29. ágúst 1981, lék í fjölda franskra kvikmynda en einnig myndinni The Bridge of San Luis Rey með leikurum á borð við Robert de Niro og Cathy Bates. Þá lék hún í myndinni Close sem vann til Óskarsverðlauna sem besta erlenda kvikmynd ársins 2023.
Síðasta kvikmynd Dequenne var stórslysamyndin Survivre sem frumsýnd var á síðasta ári.