Frakkland verður með Íslandi í riðli í undankeppni heimsmeistaramótsins 2026. Það varð ljóst eftir sigur liðsins í vítaspyrnukeppni gegn Króatíu, í átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar.
Króatía var 2-0 yfir eftir fyrri leikinn í Króatíu. Frakkar unnu hins vegar leik kvöldsins 2-0 á heimavelli með mörkum frá Michael Olise og Ousmane Dembele.
Leikurinn var framlengdur þar sem staðan í einvíginu var jöfn, það dugði ekki til að skilja liðin að og haldið var í vítaspyrnukeppni.
Þar voru Frakkar sparkvissari og skoruðu úr fimm af sjö spyrnum en Króatar skoruðu aðeins úr fjórum af sínum sjö spyrnum.
Sigurvegarinn, Frakkland, fer í fjögurra liða riðil sem hefst í september, með Íslandi, Úkraínu og Aserbaídjan, í undankeppni HM. Ísland mun taka á móti Frakklandi á Laugardalsvelli þann 13. október næstkomandi.
Tap Króata þýðir hins vegar að þeir fara í fimm liða riðil í undankeppni HM með Svartfjallalandi, Tékklandi, Færeyjum og Gíbraltar. Spilað verður í þeim riðli í júní, þegar Frakkar verða uppteknir í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar.
Niðurstöður úr átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar
Ásamt Frakklandi fara Þýskaland, Portúgal og Spánn áfram í undanúrslitin.
Þjóðverjar unnu einvígi sitt gegn Ítalíu 5-4 eftir mjög fjörugt 3-3 jafntefli í kvöld.
Portúgalir unnu einvígi sitt gegn Danmörku 5-3, eftir tap í fyrri leiknum en 5-2 sigur á heimavelli í kvöld.
Einvígi Spánar og Hollands endaði með 5-5 jafntefli, leikurinn í kvöld fór 3-3 og alla leið í vítaspyrnukeppni sem Spánn vann.