Erlent

Afi og amma Émile Soleil grunuð um að hafa banað honum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kirkja St. Mörtu í Le Vernet.
Kirkja St. Mörtu í Le Vernet. Wikimedia Commons/Sébastien Thébault

Afi og amma hins tveggja ára Émile Soleil hafa verið handtekin og eru grunuð um að hafa orðið drengnum að bana. Soleil var leitað í þorpinu Le Vernet í frönsku Ölpunum sumarið 2023 en líkamsleifar hans fundust vorið 2024.

Rannsókn málsins hefur staðið yfir síðan en lögregla sagði á sínum tíma að það væri óljóst hvernig Soleil hefði látist; hann hefði til að mynda geta hafa orðið fyrir slysi, eða verið myrtur.

Drengurinn dvaldi hjá afa sínum og ömmu í sumarhúsi þeirra í byggðarkjarnanum Haute Le Vernet þegar hann hvarf. Um 25 bjuggu í nálægum húsum.

Foreldrar Soleil voru ekki heima þegar hans var saknað en afi hans tók fyrst eftir því að drengurinn væri horfinn þegar hann fór út í garð til að sækja hann og fara með hann í bílferð.

Margar vinsælar gönguleiðir eru umhverfis Le Vernet og var það göngumaður sem fann höfuðkúpu hans í um 1,5 km fjarlægð frá þorpinu. Lögregla fann síðar fleiri bein og leifar af fatnaði Soleil.

Nokkuð var fjallað um mögulega sekt afans á sínum tíma en hann var yfirheyrður í tengslum við meint kynferðisofbeldi á 10. áratug síðustu aldar.

Afinn, Philippe Vedovini, og eiginkona hans voru handtekinn í morgun og eru grunuð um manndráp, það er að segja að hafa orðið drengnum að bana en þó ekki þannig að það hafi verið skipulagt.

Tveir aðrir fjölskyldumeðlimir hafa einnig verið handteknir.

Fjöldi fólks var viðstadd útfararmessu sem haldin var fyrir Soleil í febrúar síðastliðnum. Að messuinni lokinni sendu afinn og amman frá sér yfirlýsingu, þar sem þau sögðu að þögnin þyrfti að víkja fyrir sannleikanum.

„Við þurfum að skilja, við þurfum að vita,“ sögðu þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×