Enski boltinn

Gömul um­mæli Bartons dregin fram: „Menn sem berja konur eru skít­hælar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joey Barton ræðir við fréttamann Sky Sports.
Joey Barton ræðir við fréttamann Sky Sports. getty/Lucy North

Eftir að Joey Barton var dæmdur fyrir að hafa ráðist á eiginkonu sína hafa gömul ummæli hans á X verið dregin fram í dagsljósið.

Í fyrradag var Barton dæmdur í tólf vikna skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa gengið í skrokk á eiginkonu sinni, Georgiu, er þau rifust á heimili þeirra sumarið 2021. Barton reif í Georgiu, hrinti henni í jörðina og sparkaði í höfuð hennar. Hún fékk veglega kúlu á höfuðið, líkasta golfkúlu.

Eftir að dómurinn yfir Barton hafði verið kveðinn upp voru netverjar snöggir að finna til gömul ummæli hans um heimilisofbeldi.

„Hvernig geturðu mögulega lamið konur í nokkur skipti og kennt atviki áratug fyrr um. Menn sem berja konur eru ekkert nema skíthælar,“ skrifaði Barton á X í desember 2015. Ummæli sem eldast ekkert sérstaklega vel í ljósi frétta síðustu daga.

Barton hefur alltaf neitað sök og ætlar að áfrýja dómnum. Hann hefur þó viðurkennt að rifrildið hafi átt sér stað. Þau Georgia búa enn saman.

Eftir að leikmannaferlinum lauk stýrði Barton Fleetwood Town 2018-21 og Bristol Rovers 2021-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×