Handbolti

Skara í undanúr­slit eftir víta­keppni

Siggeir Ævarsson skrifar
Aldís og félagar hennar í Skara eru komnar beinustu leið í 4-liða úrslit
Aldís og félagar hennar í Skara eru komnar beinustu leið í 4-liða úrslit Skara HF

Deildarmeistarar Skara í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta eru komnir í 4-liða úrslit eftir að hafa sópað Kristianstad út en þriðji og síðasti sigurinn var þó torsóttur. Grípa þurfti til framlengingar í tvígang og að lokum til vítakeppni.

Aldís Ásta og félagar hennar í Skara voru komnar í lykilstöðu fyrir leikinn í dag eftir að hafa unnið fyrstu tvo leikina og Kristianstad með bakið upp við vegginn fræga. 

Skara komst í 29-27 þegar rúm mínúta var til loka venjulegs leiktíma en gestirnir frá Kristianstad náðu að jafna, og var það Jóhanna Sigurðardóttir sem skoraði fyrra markið en hún skoraði alls fimm mörk í leiknum. Aldís Ásta var næst markahæst í liði Skara með sex mörk.

Staðan að lokinni framlengingu var 34-34 eftir að Melanie Felber náði að jafna fyrir Skara í blálokin. Aftur þurfti því að framlengja og í seinni framlengingunni voru aðeins skoruð fjögur mörk en Jóhanna skoraði síðasta markið og tryggði Kristianstad þannig vítakeppni.

Aldís og Jóhanna komu boltanum báðar í netið í vítakeppninni en Berta Rut Harðardóttir tók síðasta víti Kristianstad og brást bogalistin. Lokatölur 41-40 eftir æsispennandi leik og Skara er því komið áfram í 4-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×