Innlent

Sjór gekk yfir fjár­hús í Vík og allt á floti

Jakob Bjarnar skrifar
Þórir Kjartansson ljósmyndari náði þessum stórkostlegu en sláandi myndum af því þegar sjórinn gekk yfir Víkurfjöru með morguflóðinu. 
Þórir Kjartansson ljósmyndari náði þessum stórkostlegu en sláandi myndum af því þegar sjórinn gekk yfir Víkurfjöru með morguflóðinu.  Þórir Kjartansson

Árni Gunnarsson frístundabóndi í Vík hefur aldrei séð annað eins og þegar brimið gekk yfir hús hans. Hann segir suðvestanáttina langversta á svæðinu.

„Já, þarna gekk mikið á. Húsið hvarf í sjó þegar ég kom hérna klukkan átta. Það braut svo á því. Þá var ég búinn að fá fréttir af því að það gengi mikið á. Og húsið hvarf þegar ég beygði af þjóðveginum,“ segir Árni Gunnarsson í samtali við Vísi.

Árni segist ekki vera með margt fé, hann sé hobbí-bóndi en þetta eru um 35 skjátur sem hann rak úr húsinu og í annað hús, hesthús sem stendur ofar.

Hér má sjá hvernig sjórinn hefur náð að iðnaðarhúsahverfinu sem stendur í grennd við sjávarmál.Þórir Kjartansson

„Ég á slatta af hrossum en sleppti þeim út til að geta verið með féð í efra húsinu. Ég fór beint í það,“ segir Árni.

Rúða brotnaði í fjárhúsinu og þá kom los á járn. Gat myndaðist á húsinu vestan megin í því.

„Þetta er í annað skiptið í vetur, en þá braut ekki svona á því. Hér er allt á floti inni í húsunum núna. Ég er að vinna í að færa til og ganga frá.“

Hér má sjá hvað snjórinn er nærri iðnaðarhúsunum austast í þorpinu sem og hest- og fjárhúsunum. Lágfjara var þegar myndin var tekin og sjávarlónið ofan við fjörukambinn eftir morgunflóðið að mestu sigið ofan í sandinn.Þórir Kjartansson

Árni hefur verið með kindur og hesta á þessum stað síðan 2003 en hann hefur aldrei lent í neinu svona svakalegu fyrr.

„Þeir settu garð fyrir framan mig, sjóvarnargarð, fyrir tveimur árum, og það gengur bara yfir hann. Austan við hann eru farnir fleiri fleiri metrar af landi. Það er annað fólk með hús austan megin við mig, þar er er allt á floti en þau lentu ekki eins illa í því.“

Einhverjar breytingar eru á sjávarbotni sem orsaka að menn rekur ekki minni til að svo mikið hafi gengið á fyrr.Þórir Kjartansson

Árni segir þetta fjör. „Já, það er bara þannig. Þýðir ekki að leggjast í eitthvað þunglyndi út af þessu, það er bara að bjarga sér.“

Árni segir augljósar breytingar því ekki hafi verið stórstreymt. Það hafi verið um daginn þegar gaf aðeins á.

„Það var garður þarna fyrir vestan sem hreppurinn setti upp og hann er farinn. Við höfum verið að berjast fyrir því að það verði eitthvað gert, til að verja húsin okkar, en það hefur gengið hægt fyrir sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×