DV greindi frá efni kvöldsins á vef sínum í gær en margir supu hveljur þegar Stefán Einar og Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, fóru hinum háðulegustu orðum um fulltrúa Flokks Fólksins, einkum þau Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra og svo Guðmund Inga Kristinsson sem tók við embættinu:
„Starfsmenn Morgunblaðsins létu vaða á súðum á bjórkvöldi – Sögðu Guðmund Inga varla læsan og líktu Ásthildi Lóu við frægan eltihrelli“ er fyrirsögnin sem DV keyrir frásögn sína undir og segir hún sína söguna.
Í frétt rekur blaðamaður ítarlega það sem sagt var á kvöldinu. En þeir Andrés og Stefán Einar fóru, ásamt Gísla Frey Valdórssyni, „fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins“ tekur penni DV fram, mikinn.
Stefán Einar og Andrés í miklu stuði
Að sögn DV, sem leggur nokkuð uppúr því að leiðrétta ónákvæmni í tali þeirra Andrésar og Stefáns Einars, líktu þeir Ásthildi Lóu við frægan eltihrelli sem sjá má í sjónvarpsþáttunum Baby Reindeer. Og áfram rekur blaðamaður DV það sem á gekk:
„Fór það mikið í taugarnar á Andrési og Stefáni Einari að svo margir hefðu komið Guðmundi Inga og Ásthildi Lóu til varnar. Sagði Stefán Einar um það:
„Hvað sagði Björg Eva Erlendsdóttir?: Ég gæti ekki hugsað mér að hafa barnamálaráðherra sem hefði ekki gert neitt svona af sér. Það er bara ég gæti ekki hugsað mér að hafa landlækni sem hefði ekki drepið mann. Hvaða rugl er þetta?“
Raunar var það kona Bjargar, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem viðhafði umrædd ummæli en þó ekki með þeim hætti sem Stefán Einar hélt fram,“ segir meðal annars í umfjöllun DV. Ljóst er að ekki fóru þeir Andrés og Stefán alltaf nákvæmt með; vildu augljóslega ekki láta staðreyndir skemma frásögnina.
Ofsareiði brýst út
En í athugasemdkerfi DV sjá menn hins vegar ekkert sniðugt við þetta og hefur þar brotist út ofsareiði. Menn keppast um að úthúða þeim Þjóðmálamönnum:
„Svo er þessi fáráður hissa á að fólk úr stjórnarflokkunum vilji ekki koma í þáttinn hjá honum !! sjálfTökuflokkurinn er viðbjóðslegur flokkur og virðist að mestu vera samansafn af rasshausum sem enginn vill vinna með,” segir einn og annar bætir við: „Illa innrættir þessir moggaaular.“ Annar segir „Þetta er botninn“. Og þannig gengur dælan: „Það verður vart verra skítlega eðlið en í þessum ofangreindum sjálfstæðisskíthælum!“ …
Stefán Einar lætur hins vegar sem ekkert sé þegar hann er spurður hvort hann vilji bregðast við þessu á einhvern hátt. Hann segir það ekki hægt en bendir þó á að þarna verði að gera greinarmun:
„Menn verða að gera greinarmun á uppistandi og alvarlegri umræðu. Þetta er bara brandarakvöld og skemmtidagskrá. Sumargleðin,“ segir Stefán Einar og hlær.