Sport

Ung­lingur myrtur eftir deilu á frjálsíþróttamóti

Sindri Sverrisson skrifar
Austin Metcalf og Karmelo Anthony voru jafnaldrar, 17 ára gamlir. Anthony hefur nú verið handtekinn fyrir að stinga Metcalf til bana.
Austin Metcalf og Karmelo Anthony voru jafnaldrar, 17 ára gamlir. Anthony hefur nú verið handtekinn fyrir að stinga Metcalf til bana.

Hinn 17 ára gamli Austin Metcalf var stunginn til bana af jafnaldra sínum úr öðrum skóla á frjálsíþróttamóti í bænum Frisco í Texas í Bandaríkjunum.

Tvíburabróðir Metcalf, Hunter, var viðstaddur og reyndi að bjarga lífi Austins áður en sjúkrafólk bar að.

Hunter segir að upp hafi komið deila á milli Austins og þess sem stakk hann, Karmelo Anthony, um sæti. Anthony mun svo hafa dregið upp hníf og stungið Austin í hjartað, samkvæmt Jeff Metcalf pabba tvíburanna.

„Ég reyndi að stökkva til eins fljótt og ég gat. Ég horfði á bróður minn og ég ætla ekki að tala meira um það. Ég reyndi að hjálpa honum,“ sagði Hunter Metcalf við WFAA.

Hunter sagði að bræðurnir hefðu aldrei fyrr hitt Anthony og að allt hefði gerst á ógnarhraða, þegar Anthony hafi verið búinn að koma sér fyrir í tjaldi skólaliðs bræðranna.

„Þetta gerðist á innan við þrjátíu sekúndum, þessi ágreiningur. Ég hef aldrei áður hitt þennan strák. Við báðum hann um að færa sig. Hann fór að verða árásargjarn og tala með óvarkárum hætti,“ sagði Hunter.

„Bróðir minn sagði honum þá að hann yrði að færa sig og [Anthony] svaraði: „Láttu mig gera það.“ Svo allt í einu greip hann í bakpokann sinn,“ sagði Hunter.

Karmelo Anthony var handtekinn á staðnum og hefur verið ákærður fyrir morð. „Ágreiningur á milli tveggja nemenda leiddi til þess að annar þeirra stakk hinn,“ sagði lögreglan í Frisco í tilkynningu en lýsti málinu ekki frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×