Fótbolti

Stelpurnar hennar Betu fengu skell á Eng­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir ræðir við markvörð sinn Nicky Evrard í leiknum í Bristol í kvöld.
Elísabet Gunnarsdóttir ræðir við markvörð sinn Nicky Evrard í leiknum í Bristol í kvöld. Getty/Andrew Matthews

Belgíska kvennalandsliðið tapaði í kvöld 5-0 á móti Englandi í Þjóðadeildinni en leikurinn fór fram í Bristol á Englandi.

Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar Belga en liðið hefur tapað fyrstu þremur leikjum sínum í keppninni.

Belgar töpuðu 3-2 á móti heimsmeisturum Spánar í fyrsta leik eftir að hafa komist í 2-0 og töpuðu síðan 1-0 á heimavelli á móti Portúgal.

Það voru mjög naum töp en í kvöld komust þær lítið áleiðis á móti sterku ensku liði.

Lucy Bronze (21. mínúta) og Millie Bright (45.+1) komu Englendingum í 2-0 í fyrri hálfleik en Bronze lagði líka upp seinna markið.

Agnes Beever-Jones skoraði síðan þriðja markið á 67. mínútu eftir sendingu frá Beth Mead.

Jessica Park skoraði fjórða markið á 77. mínútu og úrslitin voru þá löngu ráðin. Þær ensku voru samt ekki hættar því Keira Walsh skoraði fimmta markið áður en yfir lauk.

Enska liðið var miklu betra liðið, var 68 prósent með boltann og átti tuttugu skot á móti aðeins fjórum.

Spánn vann 4-2 sigur á Potúgal í hinum leik riðilsins þar sem að Patricia Guijarro, Laia Aleixandri, Claudia Pina og Esther González skoruðu mörkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×