Uppgjörið: Haukar - Fram 25-28 | Framarar í undanúrslit Hinrik Wöhler skrifar 7. apríl 2025 18:47 Reynir Þór Stefánsson var allt í öllu í sóknarleik Fram í kvöld. Vísir/Anton Brink Fram marði Hauka með þremur mörkum á Ásvöllum í kvöld í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta. Leikurinn endaði 28-25 og er þetta annar sigur Fram í einvígi liðanna og þar af leiðandi er liðið komið í undanúrslit. Það var talsverður hraði í leiknum á upphafsmínútunum og greinilegt að bæði lið ætluðu að sækja hratt. Liðin skiptust á að skora til að byrja með og var jafnræði með liðunum. Síðan fór að síga á ógæfuhliðina fyrir Hauka en þeim var fyrirmunað að koma boltanum í netið. Skotin rötuðu fram hjá markinu eða hjá Arnóri Mána Daðasyni, markverði Fram. Staðan var orðin áltileg fyrir gestina en eftir 20 mínútna leik var staðan 11-7, Fram í vil og Haukar tóku leikhlé. Haukar náðu að rétta úr kútnum, þjöppuðu sér saman í vörninni og héldu Framörum í skefjum. Á meðan Fram skoraði aðeins tvö mörk á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks náðu Haukar að skora sex mörk og jöfnuðu leikinn. Staðan var 13-13 í hálfleik eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik. Framarar komu af krafti inn í seinni hálfleik og komu sér í þriggja marka forysta á skömmum kafla í seinni hálfleik en Haukar svöruðu um hæl og jöfnuðu í 18-18. Í kjölfarið kom skrautlegur kafli sem einkenndist af tveggja mínútna brottvísunum og heldur gæðalitlum handbolta. Framarar skoruðu og leiddu með einu marki en Haukar svöruðu um leið. Dramatíkin var rétt að byrja því Haukar sáu tvö rauð spjöld með örskömmu millibilli. Þegar ríflega fimm mínútur voru eftir leiddu Framarar með einu marki, 25-24. Skarphéðinn Ívar Einarsson, leikmaður Hauka, fékk sína þriðju tveggja mínútna brottvísun og þar með rautt spjald. Nokkrum andartökum fékk línumaður Hauka, Þráinn Orri Jónsson, beint rautt spjald eftir baráttu við Dag Fannar Möller hjá Fram. Haukar léku tveimur mönnum færri um tíma og Framarar nýttu sér liðsmuninn. Framarar bættu við þremur mörkum í röð og að lokum sigruðu 28-25. Með sigrinum tryggði Fram sér sæti í undanúrslitum en Haukar eru farnir í snemmbúið sumarfrí. Atvik leiksins Það er hægt að kryfja ýmis atriði í þessum leik, en það sem gerði útslagið í kvöld var rauðu spjöldin á Hauka og kaflinn sem kom í kjölfarið. Haukar voru tveimur færri á versta tíma og Framarar nýttu yfirtöluna vel. Leikurinn gat dottið báðum megin þegar fimm mínútur voru eftir en Haukar áttu erfitt uppdráttar þegar þeir léku fjórir á móti sex Framörum og gestirnir kláruðu leikinn. Stjörnur og skúrkar Reynir Þór Stefánsson fór hamförum í sóknarleik Fram og skoraði níu mörk. Það fór allt í gegnum miðjumanninn sem var hann potturinn og pannan í sigri Framara. Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, átti stórbrotinn leik og varði 19 skot en það dugði ekki til. Það verður að teljast ansi súrt fyrir markvörðinn sem lék sinn síðasta leik fyrir Hauka í kvöld. Dómarar Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson héldu utan um leikinn í kvöld en það gekk á ýmsu. Haukar voru ósáttir með tvíeykið um miðjan fyrri hálfleik þegar hornamaðurinn, Össur Haraldsson, féll við eftir hraðaupphlaup en Framarar þutu upp völlinn hinum megin og skoruðu. Brot sem maður hefur oft séð dæmt á. Á köflum í seinni hálfleik var dæmd tveggja mínútna brottvísun í nánast hverri sókn. Einar Jónsson, þjálfari Fram, var hreint út sagt ósáttur á tímapunkti en slapp með skrekkinn og fékk aðeins gult spjald fyrir mótmæli. Þráinn Orri fékk að líta rauða spjaldið í kvöld.vísir / hulda margrét Þráinn Orri Jónsson fékk beint rautt spjald þegar fimm mínútur voru eftir, eftir að hafa farið í andlit leikmanns Fram þegar þeir voru í baráttu um boltann. Óviljaverk hjá línumanninum, en dómaratvíeykið mat það sem svo að rauða spjaldið væri rétt ákvörðun. Stemning og umgjörð Stemningin var þokkaleg, miðað við að þetta séu enn 8-liða úrslitin. Ágætis mæting var á pallana, þó verður seint sagt að það hafi verið þétt setið á Ásvöllum í kvöld. Það hitnaði þó í kolunum eftir því sem á leið leikinn, eins og við mátti búast. Það má þó reikna með að stuðningsmenn Fram taki við sér og fjölmenni á undanúrslitaleikina. Viðtöl Aron Rafn: „Þetta var minn seinasti leikur“ Aron Rafn Eðvarðsson varði eins og berserkur í sínum síðasta leik.Vísir/Pawel Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, lék sinn síðasta leik á ferlinum í kvöld og var niðurlútur yfir því að þetta hafi orðið endapunkturinn. Aron segir að Framarar voru baráttuglaðari á meðan Haukar klikkuðu á síðustu mínútum leiksins. „Þeir þorðu að vinna leikinn, það var einfaldlega það. Við þorðum ekki og gugnuðum á lokasprettinum,“ sagði Aron dapur í bragði. Markvörðurinn sá brotið sem orsakaði rauða spjaldið ansi vel og var ekki fullkomlega sammála dómaratvíeykinu. „Frá mínu sjónarhorni, nei. Þráinn tekur bara í boltann en ég er ekki með dómararéttindin þannig get ekki sagt meira um það,“ sagði Aron Rafn um rauða spjaldið. Aron Rafn var þokkalega sáttur með eigin frammistöðu í kvöld, en segir það engu skipta þegar tap er niðurstaðan. Leikmenn Hauka halda nú í sumarfrí en það eru stærri tímamót hjá Aroni Rafni eftir leikinn í kvöld. „Þetta var minn seinasti leikur þannig ég þakka fyrir það.“ Hann viðurkennir að það sé súrsæt tilfinning að skóna á hilluna eftir leik sem þennan. Hann þakkar Haukum fyrir tímann með félaginu og hyggst halda áfram að fylgja liðinu eftir þó í nýju hlutverki. „Ég held áfram að styðja Hauka og held áfram að vinna hjá Haukum. Þannig það tekur annað við,“ sagði markvörðurinn að endingu. Olís-deild karla Haukar Fram
Fram marði Hauka með þremur mörkum á Ásvöllum í kvöld í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta. Leikurinn endaði 28-25 og er þetta annar sigur Fram í einvígi liðanna og þar af leiðandi er liðið komið í undanúrslit. Það var talsverður hraði í leiknum á upphafsmínútunum og greinilegt að bæði lið ætluðu að sækja hratt. Liðin skiptust á að skora til að byrja með og var jafnræði með liðunum. Síðan fór að síga á ógæfuhliðina fyrir Hauka en þeim var fyrirmunað að koma boltanum í netið. Skotin rötuðu fram hjá markinu eða hjá Arnóri Mána Daðasyni, markverði Fram. Staðan var orðin áltileg fyrir gestina en eftir 20 mínútna leik var staðan 11-7, Fram í vil og Haukar tóku leikhlé. Haukar náðu að rétta úr kútnum, þjöppuðu sér saman í vörninni og héldu Framörum í skefjum. Á meðan Fram skoraði aðeins tvö mörk á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks náðu Haukar að skora sex mörk og jöfnuðu leikinn. Staðan var 13-13 í hálfleik eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik. Framarar komu af krafti inn í seinni hálfleik og komu sér í þriggja marka forysta á skömmum kafla í seinni hálfleik en Haukar svöruðu um hæl og jöfnuðu í 18-18. Í kjölfarið kom skrautlegur kafli sem einkenndist af tveggja mínútna brottvísunum og heldur gæðalitlum handbolta. Framarar skoruðu og leiddu með einu marki en Haukar svöruðu um leið. Dramatíkin var rétt að byrja því Haukar sáu tvö rauð spjöld með örskömmu millibilli. Þegar ríflega fimm mínútur voru eftir leiddu Framarar með einu marki, 25-24. Skarphéðinn Ívar Einarsson, leikmaður Hauka, fékk sína þriðju tveggja mínútna brottvísun og þar með rautt spjald. Nokkrum andartökum fékk línumaður Hauka, Þráinn Orri Jónsson, beint rautt spjald eftir baráttu við Dag Fannar Möller hjá Fram. Haukar léku tveimur mönnum færri um tíma og Framarar nýttu sér liðsmuninn. Framarar bættu við þremur mörkum í röð og að lokum sigruðu 28-25. Með sigrinum tryggði Fram sér sæti í undanúrslitum en Haukar eru farnir í snemmbúið sumarfrí. Atvik leiksins Það er hægt að kryfja ýmis atriði í þessum leik, en það sem gerði útslagið í kvöld var rauðu spjöldin á Hauka og kaflinn sem kom í kjölfarið. Haukar voru tveimur færri á versta tíma og Framarar nýttu yfirtöluna vel. Leikurinn gat dottið báðum megin þegar fimm mínútur voru eftir en Haukar áttu erfitt uppdráttar þegar þeir léku fjórir á móti sex Framörum og gestirnir kláruðu leikinn. Stjörnur og skúrkar Reynir Þór Stefánsson fór hamförum í sóknarleik Fram og skoraði níu mörk. Það fór allt í gegnum miðjumanninn sem var hann potturinn og pannan í sigri Framara. Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, átti stórbrotinn leik og varði 19 skot en það dugði ekki til. Það verður að teljast ansi súrt fyrir markvörðinn sem lék sinn síðasta leik fyrir Hauka í kvöld. Dómarar Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson héldu utan um leikinn í kvöld en það gekk á ýmsu. Haukar voru ósáttir með tvíeykið um miðjan fyrri hálfleik þegar hornamaðurinn, Össur Haraldsson, féll við eftir hraðaupphlaup en Framarar þutu upp völlinn hinum megin og skoruðu. Brot sem maður hefur oft séð dæmt á. Á köflum í seinni hálfleik var dæmd tveggja mínútna brottvísun í nánast hverri sókn. Einar Jónsson, þjálfari Fram, var hreint út sagt ósáttur á tímapunkti en slapp með skrekkinn og fékk aðeins gult spjald fyrir mótmæli. Þráinn Orri fékk að líta rauða spjaldið í kvöld.vísir / hulda margrét Þráinn Orri Jónsson fékk beint rautt spjald þegar fimm mínútur voru eftir, eftir að hafa farið í andlit leikmanns Fram þegar þeir voru í baráttu um boltann. Óviljaverk hjá línumanninum, en dómaratvíeykið mat það sem svo að rauða spjaldið væri rétt ákvörðun. Stemning og umgjörð Stemningin var þokkaleg, miðað við að þetta séu enn 8-liða úrslitin. Ágætis mæting var á pallana, þó verður seint sagt að það hafi verið þétt setið á Ásvöllum í kvöld. Það hitnaði þó í kolunum eftir því sem á leið leikinn, eins og við mátti búast. Það má þó reikna með að stuðningsmenn Fram taki við sér og fjölmenni á undanúrslitaleikina. Viðtöl Aron Rafn: „Þetta var minn seinasti leikur“ Aron Rafn Eðvarðsson varði eins og berserkur í sínum síðasta leik.Vísir/Pawel Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, lék sinn síðasta leik á ferlinum í kvöld og var niðurlútur yfir því að þetta hafi orðið endapunkturinn. Aron segir að Framarar voru baráttuglaðari á meðan Haukar klikkuðu á síðustu mínútum leiksins. „Þeir þorðu að vinna leikinn, það var einfaldlega það. Við þorðum ekki og gugnuðum á lokasprettinum,“ sagði Aron dapur í bragði. Markvörðurinn sá brotið sem orsakaði rauða spjaldið ansi vel og var ekki fullkomlega sammála dómaratvíeykinu. „Frá mínu sjónarhorni, nei. Þráinn tekur bara í boltann en ég er ekki með dómararéttindin þannig get ekki sagt meira um það,“ sagði Aron Rafn um rauða spjaldið. Aron Rafn var þokkalega sáttur með eigin frammistöðu í kvöld, en segir það engu skipta þegar tap er niðurstaðan. Leikmenn Hauka halda nú í sumarfrí en það eru stærri tímamót hjá Aroni Rafni eftir leikinn í kvöld. „Þetta var minn seinasti leikur þannig ég þakka fyrir það.“ Hann viðurkennir að það sé súrsæt tilfinning að skóna á hilluna eftir leik sem þennan. Hann þakkar Haukum fyrir tímann með félaginu og hyggst halda áfram að fylgja liðinu eftir þó í nýju hlutverki. „Ég held áfram að styðja Hauka og held áfram að vinna hjá Haukum. Þannig það tekur annað við,“ sagði markvörðurinn að endingu.