Handbolti

Aftur­elding mætir Val í undanúr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Blær Hinriksson var magnaður í kvöld.
Blær Hinriksson var magnaður í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Afturelding sendi ÍBV í sumarfrí með því að vinna annan leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta. Lokatölur í Vestmannaeyjum 25-27 og Afturelding komið í undanúrslit. Sömu sögu er að segja úr Garðabæ þar sem Valur vann Stjörnuna í framlengdum leik og sópaði Garðbæingum þar með í sumarfrí.

Leikur kvöldsins var hnífjafn framan af og ljóst að allir ætluðu að selja sig dýrt. Staðan i hálfleik 14-15. Um stund virtist sem ÍBV myndi knýja fram oddaleik en Eyjamenn leiddu 22-21 áður en gestirnir sneru dæminu sér í við og unnu tveggja marka sigur.

Menn leiksins voru án efa þeir Einar Baldvin Baldvinsson markvörður Aftureldingar og Blær Hinriksson. Markvörðurinn varði 19 skot og var með 47,5 prósent hlutfallsmarkvörslu á meðan Blær skoraði 11 mörk. Hjá ÍBV skoraði Dagur Arnarsson 9 mörk og Petar Jokanovic varði 18 skot í markinu.

Í Garðabænum gat Valur tryggt sér sæti í undanúrslitum en Stjörnumenn neituðu að leggja árar í bát. Staðan að loknum venjulegum leiktíma 26-26 og því þurfti að framlengja. Þar voru það gestirnir frá Hlíðarenda sem reyndust sterkari aðilinn, lokatölur 28-32.

Tandri Már Konráðsson var markahæstur hjá Stjörnunni með 6 mörk á meðan Sigurður Dan Óskarsson varði 20 skot í markinu. Hjá Val var Bjarni í Selvindi markahæstur með 6 mörk á meðan Björgvin Páll Gústavsson varði 16 skot.

Eftir sigra kvöldsins er ljóst að Afturelding og Valur mætast í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×