Það iðar allt af lífi og fjöri í Hvolnum enda hafa æfingar fyrir kabarettinn, sem heitir „Lífið er kabarett“ staðið yfir linnulaust síðustu vikurnar. Hér erum við að tala um hljómsveit og söng, sem nemendur Tónlistarskóla Rangæinga, sjá alfarið um að syngja en allt eru þetta söngnemendur í skólanum hjá söngkennurunum Aðalheiði M. Gunnarsdóttur, Maríönnu Másdóttur og Unni Birni Björnsdóttur.
„Þetta er samsöngshópur og alveg geggjaðar gellur hérna, fullorðni söngnemendur, sem eru í samsöng hjá mér og við ákváðum núna um áramótin af því að það var svo mikið „Women Power“ í þjóðfélaginu og gera smá kabarett,“ segir Aðalheiður Margrét, ein af söngkennurunum.
Þetta er ótrúlega flott hjá ykkur.
„Takk fyrir, það eru komnir búningar og það verður kannski fækkað fötum og allar græjur og svo verða tveir leynigestir, þannig að þetta verður alveg geggjað“, bætir hún við.

Aðalheiður segir að það sé ekki bara söngurinn, sem skipti máli í svona verkefni, það sé líka sviðsframkoman, hvernig þú beitir röddinni og ekki síður skemmtilegur félagsskapur enda mikið búið að hlæja á æfingum og gera allskonar grín. Matur frá Midgard á Hvolsvelli verður líka á borðstólnum á sýningunum.
„En það er svo dásamlegt að við erum alveg að fara út fyrir þægindarammann. Við erum alveg eins og táningsstelpur og þetta er alveg geðveikt skemmtilegt, ég mæli með að fólk fjölmenni í Hvolinn til að njóta dásamlegrar kvöldstundar og sjá þessar dásamlegu söngdýfur. Ég mæli með að flytja hingað, það er brjálað stuð í Rangárþingi,“ segir Aðalheiður Margrét.
Kabarettinn verður sýndur í Hvolnum föstudagskvöldið 11. apríl þar sem hægt er að velja um tvær sýningar, annars vegar klukkan 18:00 eða 21:00.
