Handbolti

Strákarnir hans Guð­mundar með frá­bæran stór­sigur á GOG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson var örugglega mjög sáttur með sína menn í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson var örugglega mjög sáttur með sína menn í kvöld. Vísir/Vilhelm

Íslensku þjálfararnir Guðmundur Guðmundsson og Arnór Atlason fögnuðu báðir góðum sigrum í danska handboltanum í kvöld.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Fredericia sýndu og sönnuð styrk sinn í kvöld með frábærum sigri á liðinu í öðru sæti dönsku deildarinnar.

Fredericia vann þá átta marka heimsigur á GOG, 28-20, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15-11.

Það var ekki aðeins sigurinn heldur en stærð hans sem vekur athygli. GOG er í öðru sæti deildarinnar en Fredericia var í því fimmta.

Fredericia hafði aðeins náð í einn sigur úr síðustu fimm deildarleikjum sínum þannig að það var vel fagnað eftir þennan frábæra sigur.

Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark í leiknum og fékk líka eina brottvísun. Mads Kjeldgaard átti stórleik og skoraði tíu mörk.

Íslendingaliðið Ribe-Esbjerg tapaði með þriggja marka mun á heimavelli á móti Arnór Atlasyni og lærisveinum hans í Holstebro.

Holstebro vann leikinn 30-27, eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 16-15.

Elvar Ásgeirsson nýtti öll þrjú skotin sín og gaf einnig fimm stoðsendingar á félaga sína.

Ágúst Elí Björgvinsson byrjaði á bekknum en kom inn í markið í seinni hálfleik og varði þá 5 af 11 skotum sem komu á hann þar af varði hann tvö víti.

Ágúst Elí varði 45 prósent skota sem komu á hann en því miður fyrir hann þá dugði það ekki til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×