Skytturnar skildu jafnar við Bý­flugurnar

Yoane Wissa skoraði jöfnumarmark Brentford skömmu eftir að Arsenal komst yfir.
Yoane Wissa skoraði jöfnumarmark Brentford skömmu eftir að Arsenal komst yfir. Alex Davidson/Getty Images

Arsenal og Brentford gerðu 1-1 jafntefli í 32. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Arsenal tók forystuna en fékk á sig jöfnunarmark skömmu síðar og situr nú tíu stigum á eftir toppliði Liverpool, sem á leik til góða gegn West Ham á morgun. 

Kieran Tierney kom boltanum í netið fyrir Arsenal eftir tæplega hálftíma leik en markið var dæmt af vegna rangstöðu og staðan því markalaus í hálfleik. Í seinni hálfleik settu bæði lið meiri ákefð í sóknarleikinn, eftir að hafa fengið fá færi í fyrri hálfleik.

Thomas Partey tók forystuna fyrir Arsenal á 61. mínútu en Declan Rice átti stærstan þátt í markinu með hörkuspretti upp allan völlinn eftir hornspyrnu Brentford. Rice skapaði góða stöðu, þrír á tvo, og lagði boltann svo til hliðar á Partey sem kláraði færið.

Declan Rice lagði mark Arsenal upp fyrir Thomas Partey. Vince Mignott/MB Media/Getty Images

Rice var ekki eins skeinuhættur skömmu síðar, þá skallaði hann hornspyrnu Brentford burt en boltinn fór ekki langt og var gefinn aftur fyrir markið. Nathan Collins reis upp á fjærstönginni og dempaði boltann fyrir Yoane Wissa sem kláraði færið og jafnaði leikinn.

Arsenal var næstum því búið að taka forystuna strax aftur, þegar Bukayo Saka stal boltanum af Mark Flekken, markmanni Brentford, en tókst ekki að koma honum í netið.

Síðustu mínúturnar þurfti Arsenal að spila með aðeins tíu menn á vellinum. Jorginho haltraði út af á 86. mínútu en liðið var búið með allar sínar skiptingar. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira