Arnór Ingvi spilaði allan leikinn djúpur á miðju Norrköping. Ari byrjaði fremstur á miðju hjá Elfsborg, sem var mun sterkari aðilinn, og spilaði sjötíu mínútur, en var síðan tekinn af velli fyrir Frederik Ihler sem tvöfaldaði forystuna á þriðju mínútu uppbótartíma. Taylor Silverholt skoraði fyrra markið á 33. mínútu.
Ísak Andri Sigurgeirsson kom inn af varamannabekk Norrköping á sjötugustu mínútu en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn. Júlíus Magnússon, miðjumaður Elfsborg, var fjarverandi vegna meiðsla.
Fyrsti sigur Elfsborg skilaði sér þar með í þriðju umferð, eftir jafntefli gegn Mjallby í fyrstu umferð og tap gegn Malmö í annarri umferð. Norrköping vann Öster í fyrstu umferðinni en hefur síðan tapað gegn AIK og Elfsborg.
Ari er nýgenginn til liðs við Elfsborg og fer vel af stað, skoraði í fyrsta leik og hefur verið í byrjunarliðinu í fyrstu þremur leikjunum.
Davíð framar á vellinum en vanalega í Póllandi
Davíð Kristján Ólafsson spilaði fyrri hálfleikinn í 2-4 tapi Cracovia gegn Slask í 28. umferð pólsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Davíð var framar á vellinum en vanalega, spilaði sem vinstri vængmaður frekar en vængbakvörður. Liðið situr í sjötta sæti deildarinnar þegar sex umferðir eru eftir.