Innlent

Jarð­skjálfta­hrina í Ljósufjallakerfinu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hítará í nágrenni Grjótárvatns.
Hítará í nágrenni Grjótárvatns. Vísir/Vilhelm

Tugir jarðskjálfta hafa mælst síðustu klukkustundir í Ljósufjallakerfinu á Snæfellsnesi, á milli Grjótárvatns og Langavatns á Vesturlandi.

„Þetta er lítil hrina sem er í gangi sem byrjaði rétt eftir klukkan sex,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Ekki er búið að yfirfæra alla skjálftana en eru þeir flestir 1,5 til 2,5 á stærð. Draga fór úr hrinunni upp úr klukkan sjö.

Hér má sjá hvar Langavatn er.Vísir

„Það eru búnir að mælast um þrjátíu skjálftar, þetta eru frekar djúpir skjálftar,“ segir Bjarki.

Hann segir sérfræðinga á Veðurstofunni ekki hafa miklar áhyggjur eins og er. Mögulega sé kvika á hreyfingu undir jarðskorpunni en hún er ekki komin í skorpuna.

Einnig var sett upp jarðskjálftastöð á svæðinu í fyrrahaust og því mælist fleiri minni skjálftar á svæðinu en áður. Sérfræðingarnir koma til með að fylgjast áfram með stöðunni.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands gerir hrinunni skil á Facebook-hóp sínum og segja hrinuna líklega mestu hrinu sem hefur nokkurn tímann mælst á þessum slóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×