Fótbolti

Aftur með þrennu á af­mælis­deginum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Felicia Schröder er sænsk unglingalandsliðskona og mjög efnilegur framherji. Það er líka gott að setja alltaf leik á afmælisdaginn hennar.
Felicia Schröder er sænsk unglingalandsliðskona og mjög efnilegur framherji. Það er líka gott að setja alltaf leik á afmælisdaginn hennar. Getty/Sam Barnes

Sænska knattspyrnukonan Felicia Schröder kann heldur betur að halda upp á afmælið sitt í fótboltaskónum. Það hefur hún nú sýnt og sannað undanfarin tvö ár og gerði meira segja betur í ár en í fyrra.

Schröder fæddist 13. apríl 2007 og hélt því upp á átján ára afmælið sitt í gær. Hún er löngu orðin lykilleikmaður síns liðs í sænsku deildinni en hún er liðsfélagi Fanneyjar Birkisdóttur hjá Häcken.

Í fyrra hélt Schröder upp á sautján ára afmælið sitt með því að skora þrennu og í gær endurtók hún leikinn og gott betur með því að skora fernu fyrir BK Häcken í 5-1 sigri á Vittsjö í sænsku kvennadeildinni.

Það tók hana heldur ekki langan tíma að ná afmælisþrennu annað árið í röð því hún skoraði þrjú fyrstu mörk Häcken á fyrstu 24 mínútum leiksins.

Schröder skoraði síðan fjórða markið sitt á 77. mínútu og endaði síðan eftirminnilegan leik á því að næla sér í gult spjald.

Schröder var búin að skora eitt mark í fyrstu tveimur leikjunum en er nú orðin markahæst í deildinni.

Leikurinn hennar á afmælisdeginum í fyrra var á móti Norrköping og vannst 4-3. Schröder skoraði þá tvö fyrstu mörkin í þeim leik og svo sigurmarkið á sjöttu mínútu í uppbótatíma.

Hún hefur skorað alls 17 mörk í 27 deildarleikjum á síðustu tveimur tímabilum en sjö þeirra hafa komið á afmælisdegi hennar 13. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×