Erlent

Arki­tekt guðs skrefi nær dýrðlingatölu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Antoni Gaudí i Cornet er þekktastur fyrir að hafa teiknað hina víðfrægu Yfirbótakirkju heilögu fjölskyldunnar, eða Sagrada família eins og hún er betur þekkt.
Antoni Gaudí i Cornet er þekktastur fyrir að hafa teiknað hina víðfrægu Yfirbótakirkju heilögu fjölskyldunnar, eða Sagrada família eins og hún er betur þekkt. Vísir

Páfagarður hefur gefið út að arkitektinn katalónski Antonio Gaudí sé kominn skrefi nær því að verða tekinn í tölu dýrðlinga.

Í tilkynningu frá embætti páfans kemur fram að hann hafi á einum sínu fyrstu embættisverkum eftir að hafa legið lengi í alvarlegum veikindum viðurkennt „hetjulegar dyggðir“ Gaudí en hann hefur oft verið kallaður „arkitekt guðs.“

Þessi viðurkenning páfans er fyrsta skrefið af mörgum í átt til þess að vera tekinn í tölu dýrðlinga. Gaudí er þekktastur fyrir að vera maðurinn á bak við Yfirbótakirkju heilögu fjölskyldunnar í Barselóna, sem er yfirleitt kölluð Sagrada família. Hann stendur einnig að fleiri þekktum áfangastöðum ferðamanna í borginni svo sem safni tileinkuðu honum og fjöldanum öllum að frægustu mannvirkjum borgarinnar.

Samkvæmt umfjöllun Guardian hafa dýrkendur hans barist fyrir því að hann verði tekinn í dýrðlingatölu í fleiri áratugi og bent á það að meistaraverk hans, draumkenndir turnar þess og hvernig ljósið leikur um það inn um gluggana, hafi snúið fólki til kaþólskrar trúar.

„Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því,“ er haft eftir þáverandi formanni samtakanna um dýrðlingavæðingu Gaudí, José Manuel Almuzara, árið 2003. Hann sagði hreyfingu sem teldi allt að 80 þúsund kaþólikka biðja til hans.

Yfirbótakirkju heilögu fjölskyldunnar hefur verið í byggingu síðan 1882. Öllum þessum árum síðar stendur hún enn ókláruð. Benedikt sextándi vígði kirkjuna árið 2010 og lofaði Gaudí. Hann sagði kirkjuna bera vott um snilligáfu Gaudí og kallaði hana „lofsöng til drottins úr steini.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×