Innlent

Leikhúsþýðingar Vig­dísar gefnar út

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frú Vigdís Finnbogadóttir fagnar 95 ára afmæli í dag.
Frú Vigdís Finnbogadóttir fagnar 95 ára afmæli í dag. Vísir/Ívar Fannar

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, fagnar í dag 95 ára afmæli sínu. Af því tilefni var gefin út bókin Frönsk framúrstefna; Sartre, Genet, Tardieu en í bókinni má finna þýðingar Vigdísar á þremur leikritum. 

Leikritin eru Læstar dyr eftir Jean-Paul Sartre, Vinnukonurnar eftir Jean Genet og Ég er kominn til að fá upplýsingar eftir Jean Tardieu. Verkin þrjú þýddi Vigdís á árunum 1961 til 1966, tvö fyrri leikritin fyrir leikhópinn Grímu og það þriðja fyrir Leikfélag Reykjavíkur. 

Fámennt útgáfuhóf var haldið í Veröld Vigdísar í dag þar sem afmælisbarnið mætti auk Höllu Tómasdóttur forseta. Bókin er gefin út með styrk frá Styrktarsjóði Vigdísar Finnbogadóttur og Miðstöð íslenskra bókmennta. Guðrún Kristinsdóttir, Irma Erlingsdóttir og Ásdís R. Magnúsdóttir eru ritstjórar.

Eins var í dag opnuð sýning, Skrúði Vigdísar, í Loftskeytastöðinni, þar sem skoða má hátíðarklæðnað forsetans fyrrverandi en eins og flestir vita var hún fyrsti lýðræðislega kjörni kvenþjóðhöfðinginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×