Enski boltinn

Kom þriðja liðinu upp í ensku úr­vals­deildina í fyrstu til­raun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Scott Parker var tolleraður eftir sigur Burnley á Leeds United í gær. Með sigrinum tryggði Burnley sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
Scott Parker var tolleraður eftir sigur Burnley á Leeds United í gær. Með sigrinum tryggði Burnley sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. getty/James Gill

Burnley tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni í gær. Þetta er í þriðja sinn sem knattspyrnustjórinn Scott Parker kemur liði upp úr B-deildinni í úrvalsdeildina í fyrstu tilraun.

Burnley vann 2-1 sigur á Sheffield United í gær og þar með var ljóst að liðið hefði endurheimt sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni. Sigur Burnley tryggði Leeds United einnig úrvalsdeildarsæti.

Burnley féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en þrátt fyrir það var stjóri liðsins, Vincent Kompany, ráðinn stjóri Bayern München í sumar.

Parker tók við starfi hans og hefur gert afar góða hluti með Burnley. Liðið hefur aðeins tapað tveimur af 44 leikjum sínum í B-deildinni og er í 2. sæti með 94 stig, jafn mörg og topplið Leeds. Varnarleikur Burnley hefur verið afar sterkur en liðið hefur aðeins fengið á sig fimmtán mörk í deildinni á tímabilinu.

Parker er ekki óvanur að koma liðum upp úr B-deildinni en undir hans stjórn komst Fulham upp í ensku úrvalsdeildina tímabilið 2019-20 og Bournemouth 2021-22.

Öllu verr hefur gengið hjá Parker þegar í úrvalsdeildina er komið. Fulham féll tímabilið 2020-21 og Parker yfirgaf félagið um sumarið. Hann var ekki lengi atvinnulaus en sama dag og hann hætti með Fulham var hann ráðinn stjóri Bournemouth.

Parker kom Bournemouth upp úr B-deildinni í fyrstu tilraun en var rekinn skömmu eftir 9-0 tap fyrir Liverpool snemma tímabils 2022-23. Parker fór þaðan til Club Brugge í Belgíu en var svo ráðinn stjóri Burnley síðasta sumar.

Ljóst er að Leicester City, Ipswich Town og Southampton falla úr ensku úrvalsdeildinni. Leeds, Burnley og liðið sem vinnur umspilið taka sæti þeirra. Þegar tvær umferðir eru eftir eru Sheffield United, Sunderland, Bristol City og Coventry City í umspilssætunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×