Enski boltinn

Evra vill berjast við Suárez í búrinu: Hann má meira að segja bíta mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frægt var þegar Luis Suarez neitaði að taka í höndina á  Patrice Evra fyrir leik Manchester United og Liverpool á Old Trafford árið 2012.
Frægt var þegar Luis Suarez neitaði að taka í höndina á  Patrice Evra fyrir leik Manchester United og Liverpool á Old Trafford árið 2012. Getty/Matthew Peters

Patrice Evra, fimmfaldur Englandsmeistari með Manchester United, ætlar að reyna fyrir sér í blönduðum bardagaíþróttum í París í næsta mánuði og hann á sér óskamótherja.

Það muna eflaust margir eftir illindum á milli þeirra Evra og þáverandi Liverpool manns Luis Suárez. Suárez var sakfelldur af enska sambandinu fyrir rasisma gagnvart Evra og fékk átta leikja bann fyrir það.

Þegar Suárez kom aftur úr banninu í leik á móti Manchester United á Old Trafford þá neitaði Suárez að taka í höndina á Evra fyrir leikinn.

Suárez kom sér enn frekar í vandræði þegar hann varð uppvís að því að bíta mótherja sína, bæði í leik með Liverpool og í leik með Úrúgvæ á HM.

Evra hefur samþykkt að berjast í París 23. maí en það á eftir að finna mótherja fyrir hann. Sá franski telur þetta upplagt tækifæri til að gera endanlega upp mál hans og Úrúgvæjans.

„Ég er að æfa fyrir minn fyrsta bardaga hjá PFL Europe. Þeir munu síðan velja mótherjann fyrir mig. Þeir spurðu mig hverjum ég vildi mæta. Ég svaraði Luis Suárez. Ég skal splæsa og hann má meira að segja bíta mig,“ skrifaði Patrice Evra á samfélagsmiðilinn X.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×