Veður

Hiti gæti náð fimm­tán stigum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Skólavörðustígurinn að vori til.
Skólavörðustígurinn að vori til. Vísir/Vilhelm

Lægð suðaustur af Hornafirði stjórnar veðri landsins í dag með vestlægum áttum. Skýjað og dálítil væta og hiti á bilinu fimm til tíu stig. Bjartviðri á Suðausturlandi og Austfjörðum og gæti hiti þar náð 15 stigum.

Þetta kemur fram í veðurspá Veðurstofunnar. Þar segir að vestlæg áttin verði á bilinu fimm til þrettán metrar á sekúndu. Þá bætir í úrkomuna í kvöld. 

Á morgun kemur lítil lægð yfir Grænlandsjökul og fer austur með Norðurlandi með norðan 3-8 m/s, en 8-13 austanlands. Þá verður rigning með köflum á norðanverðu landinu og hiti þar á bilinu tvö til sjö stig en léttir smám saman til sunnan- og vestantil. Hlýjast verður suðaustanlands og verður hitinn á bilinu fjögur til fjórtán stig.

Annað kvöld og á laugardag færist hæð yfir landið og því verður hægur vindur og léttskýjað um mest allt land um helgina.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Hæg breytileg átt og yfirleitt léttskýjað. Hiti sjö til fjórtán stig yfir daginn.

Á sunnudag: Suðvestan 5-10 m/s og lítilsháttar væta, en bjartviðri norðaustan- og austanlands. Hiti sjö til fimmtán stig, hlýjast á Austurlandi.

Á mánudag: Sunnan 3-8, en 8-13 á vestanverðu landinu. Skýjað og dálítil rigning eða súld, en bjart með köflum á Norður- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag: Suðlæg átt, rigning af og til og hiti 8 til 12 stig, en bjartviðri norðaustantil á landinu með hita að átján stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×