Enski boltinn

Beckham fimm­tugur í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Beckham smellir kossi á Meistaradeildarbikarinn í búningsklefanum á Nývangi eftir frægan sigur Manchester United á Bayern München 26. maí 1999.
David Beckham smellir kossi á Meistaradeildarbikarinn í búningsklefanum á Nývangi eftir frægan sigur Manchester United á Bayern München 26. maí 1999. getty/John Peters

David Beckham, einn frægasti íþróttamaður allra tíma, fagnar fimmtugsafmæli sínu í dag.

Beckham átti farsælan feril sem fótboltamaður en hefur líka verið áberandi í dægurmenningu enda giftur Kryddpíunni fyrrverandi, Victoriu. Þau eiga fjögur börn saman.

Beckham hóf ferilinn með Manchester United og vann allt sem hægt var að vinna með félaginu áður en hann fór til Real Madrid 2003. Þar lék hann til 2007 þegar hann gekk í raðir Los Angeles Galaxy í Bandaríkjunum. Beckham lék með LA Galaxy til 2012 en var í tvígang lánaður til AC Milan. Hann lauk ferlinum svo með Paris Saint-Germain 2013.

Árið 1996 lék Beckham sinn fyrsta landsleik fyrir England. Tveimur árum síðar varð hann einn hataðasti maður landsins eftir rauða spjaldið sem hann fékk í leik gegn Argentínu í sextán liða úrslitum á HM í Frakklandi.

Þegar Sven-Göran Eriksson tók við enska landsliðinu gerði hann Beckham að fyrirliða þess. Beckham skoraði markið sem tryggði Englandi sæti á HM 2002, með skoti beint úr aukaspyrnu gegn Grikklandi á Old Trafford.

Alls lék Beckham 115 landsleiki og skoraði sautján mörk. Hann er þriðji leikjahæstur í sögu enska landsliðsins.

Beckham er í dag eigandi bandaríska fótboltaliðsins Inter Miami sem Lionel Messi og Luis Suárez leika með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×