Enski boltinn

Salah valinn bestur af blaða­mönnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah er bæði marka- og stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Mohamed Salah er bæði marka- og stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. getty/Carl Recine

Mohamed Salah, framherji Englandsmeistara Liverpool, var valinn leikmaður ársins af samtökum fótboltablaðamanna á Englandi.

Salah hefur skorað 28 mörk og lagt upp átján í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Liverpool tryggði sér Englandsmeistaratitilinn með 5-1 sigri á Tottenham 27. apríl síðastliðinn.

Salah fékk níutíu prósent atkvæða í kjörinu en rúmlega níu hundruð blaðamenn hafa atkvæðisrétt. Aldrei hefur leikmaður unnið þessa kosningu með jafn afgerandi hætti á þessari öld og Salah.

Fyrirliði Liverpool, Virgil van Dijk, var í 2. sæti í kjörinu og Alexander Isak, framherji Newcastle United, í því þriðja.

Þetta er í þriðja sinn sem Salah vinnur þessi verðlaun. Hann gerði það einnig tímabilin 2017-18 og 2021-22. Thierry Henry er sá eini sem hefur fengið þessi verðlaun jafn oft og Salah.

Egyptinn skrifaði á dögunum undir nýjan tveggja ára samning við Liverpool. Hann hefur leikið með liðinu síðan 2017. 

Liverpool mætir Arsenal, liðinu í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×