Enski boltinn

Villa ekki í vand­ræðum með Spurs og stefnir aftur í Meistaradeildina

Sindri Sverrisson skrifar
Boubacar Kamara skoraði seinna mark Aston Villa og fagnaði því vel.
Boubacar Kamara skoraði seinna mark Aston Villa og fagnaði því vel. Getty/Nigel French

Niðurlæging Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta hélt áfram í kvöld þegar liðið tapaði í 21. sinn á þessari leiktíð, 2-0 gegn Aston Villa í Birmingham.

Villa-menn þurftu á sigrinum að halda í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en gestirnir virtust með hugann við úrslitaleik Evrópudeildarinnar, gegn Manchester United næsta miðvikudagskvöld.

Sigurinn skilar Villa upp fyrir Chelsea og Manchester City, í 4. sæti deildarinnar með 66 stig, en Chelsea er þessa stundina að spila við Manchester United og City á leik til góða við Bournemouth á þriðjudaginn.

Það er því ljóst að Villa verður með í slagnum um Meistaradeildarsæti í lokaumferðinni, og mögulega með örlögin í eigin höndum, eftir að hafa kynnst Meistaradeildinni vel á þessari leiktíð.

Tottenham er hins vegar áfram í 17. sæti, með aðeins 38 stig úr 37 leikjum.

Ezri Konsa kom Villa yfir í kvöld á 59. mínútu, eftir skallasendingu frá Ollie Watkins, og Boubacar Kamara bætti svo við seinna markinu á 73. mínútu, með sínu fyrsta marki í ensku úrvalsdeildinni.

Villa mætir Manchester United á Old Trafford í lokaumferðinni eftir rúma viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×