Handbolti

Löggan óskaði Hildi­gunni til hamingju

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hildigunnur Einarsdóttir leikur lykilhlutverk í liði Vals.
Hildigunnur Einarsdóttir leikur lykilhlutverk í liði Vals. Vísir/Anton Brink

Valur varð í gær Evrópubikarmeistari í handknattleik eftir að hafa lagt spænska liðið Porrino í úrslitaleik. Eftir leik fékk einn leikmaður Vals sérstaka kveðju frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Mikill fögnuður braust út að Hlíðarenda í gær þegar Valskonur tryggðu sér Evrópubikarinn í handknattleik fyrst íslenskra liða. Liðið vann þá 25-24 sigur á Porrino í æsispennandi leik.

Hildigunnur Einarsdóttir er lykilmaður í liði Vals og lyfti Evrópubikarnum í leikslok sem einn af fyrirliðum Valsliðsins.

Hildigunnur mun leggja skóna á hilluna að tímabilinu loknu en hún starfar dagsdaglega hjá lögreglunni. Og það er augljóst að samstarfsfélagar hennar hjá lögreglunni eru stoltir af sinni konu því eftir leik var birt kveðja til Hildigunnar þar sem henni var óskað til hamingju með árangurinn.

„Sérstakar hamingjuóskir til lögreglumannsins í Valsliðinu, Hildigunnar Einarsdóttur, en hún leggur handboltaskóna á hilluna í lok tímabilsins eftir frábæran feril,“ sagði meðal annars í færslu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×