Innlent

Brýna fyrir eig­endum að skilja hunda ekki eftir í bílum

Árni Sæberg skrifar
Hunda skal ekki skilja eftir í bílum þegar hlýtt er í veðri.
Hunda skal ekki skilja eftir í bílum þegar hlýtt er í veðri. Getty/jennyfdowning

Matvælastofnun hefur brýnt fyrir hundaeigendum á að skilja hunda ekki eftir í bílum þegar heitt er í veðri. Hund­ur fékk hita­slag og dó á höfuðborg­ar­svæðinu um helgina og annar endaði á dýraspítala hætt kominn.

Í tilkynningu á vef Matvælastofnunar segir að samkvæmt reglugerð um aðbúnað gæludýra megi ekki skilja hund eftir í eða á flutningstæki án eftirlits ef hitastig í farartækinu getur farið yfir 25 gráðu hita eða undir fimm gráðu frost. Aldrei megi skilja hund einan eftir í flutningstæki ef hann sýnir merki um vanlíðan.

Hitastig í bílum sem sólin skín á geti mjög fljótt farið upp fyrir 25 gráður, jafnvel þótt töluvert kaldara sé úti og gluggar séu opnir. Hundar, sér í lagi stuttnefja hundar, aldraðir og mjög ungir hundar, þoli hita afar illa . Hundar geti verið í hættu að fá hitaslag ef hiti í rými er yfir 25 gráðu og þeir geta ekki kælt sig. 

Þeir geti þá drepist á skömmum tíma og því miður séu dæmi um slíkt á Íslandi. Eitt slíkt dauðsfall varð um helgina þegar hundur drapst af hitaslagi og annar endaði illa leikinn á dýraspítala.

„Gætum vel að dýrunum okkar svo allir geti notið góðviðrisins,“ segir í tilkynningu MAST.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×