Veður

Leiðin opnast fyrir lægðir að sækja að landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður 10 til 22 stig og hlýjast norðaustanlands.
Hiti á landinu verður 10 til 22 stig og hlýjast norðaustanlands. Vísir/Vilhelm

Hæðin milli Íslands og Skotlands, sem stjórnað hefur góða veðrinu síðustu daga, er að gefa eftir og því opnað leiðina fyrir lægðir að sækja að landinu.

Á vef Veðurstofunnar segir að það gangi í suðaustanstrekking eða allhvassan vind með rigningu í dag. Það verði þó mun hægara og bjartviðri eystra, en þykknar upp þar í kvöld.

Hiti verður 10 til 22 stig, hlýjast norðaustanlands.

„Á morgun, föstudag er síðan útlit fyrir stífa suðaustlæga átt með rigningu á austanverðu landinu, talsverðri úrkomu á Suðausturlandi, en hægari suðvestanvinda og skúri vestantil. Kólnar heldur í veðri.

Lítur út fyrir breytilegan vind og vætu með köflum um helgina, en tiltöluleg milt veður að deginum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Suðaustan 8-13 m/s og víða rigning, talsverð suðaustanlands, en heldur hægari suðvestlæg átt og skúrir vestantil. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á laugardag: Vestlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og dálítil rigning norðantil fram eftir degi, en annars víða skúrir. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á sunnudag: Norðlæg átt, 5-13 m/s og dálítil rigning á austanverðu landinu, en annars skúrir. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast sunnanlands.

Á mánudag: Norðanátt og dáliltlar skúrir, en hægari sunnan heiða og kólnar lítið eitt fyrir norðan.

Á þriðjudag og miðvikudag: Útlit fyrir breytilegar áttir með vætu á víð og dreif og fremur svölu veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×