Handbolti

Þjálfari Íslendingaliðsins í veikinda­leyfi eftir yfirliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Berge á að taka því rólega á næstunni.
Christian Berge á að taka því rólega á næstunni. getty/Igor Kralj

Christian Berge, þjálfari Noregsmeistara Kolstad í handbolta, er farinn í veikindaleyfi. Hann hné niður á hliðarlínunni í leik Kolstad og Elverum í fyrradag.

Gera þurfti hlé á leiknum þegar Berge hné niður í seinni hálfleik. Hugað var að þjálfaranum áður en farið var með hann út af vellinum í hjólastól.

Eftir leikinn var greint frá því að Berge væri með gáttatif, sem lýsir sér í óreglulegum og hröðum hjartslætti, og hefði misst stjórn á líkamanum.

Framkvæmdastjóri Kolstad, Jostein Sivertsen, hefur greint frá því að Berge sé kominn í ótímabundið veikindaleyfi.

Að sögn fjölmiðlafulltrúa Kolstad, Harald Pedersen, ætlaði Berge að mæta til vinnu á hádegi í gær en hafi verið uppgefinn þegar hann vaknaði.

Kolstad vann leikinn, 31-28, og tryggði sér þar með norska meistaratitilinn þriðja árið í röð. Fimm Íslendingar leika með Kolstad; Sigvaldi Guðjónsson, sem er fyrirliði liðsins, bræðurnir Arnór Snær og Benedikt Gunnar Óskarssynir, Sveinn Jóhannsson og Sigurjón Guðmundsson.

Berge var lengi þjálfari norska karlalandsliðsins áður en hann tók við Kolstad fyrir þremur árum. Mikið hefur verið lagt í lið Kolstad og sterkir leikmenn fengnir, meðal annars Sander Sagosen.

Þrátt fyrir að hafa unnið þrjá meistaratitla heima fyrir í röð hefur Kolstad ekki gert sig gildandi í Meistaradeild Evrópu og Sagosen fór aftur til Álaborgar í febrúar. Norski landsliðsmarkvörðurinn Torbjørn Bergerud er einnig á förum frá Kolstad til Wisla Plock þar sem hann á að leysa Viktor Gísla Hallgrímsson af hólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×