Fótbolti

Real Madrid stað­festir loks komu Xabi Alonso

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Xabi Alonso lék með Real Madrid í fimm ár. Nú er hann kominn aftur til félagsins.
Xabi Alonso lék með Real Madrid í fimm ár. Nú er hann kominn aftur til félagsins. getty/Pau Barrena

Spænska stórveldið Real Madrid hefur formlega staðfest það sem allir vissu; að Xabi Alonso yrði næsti knattspyrnustjóri liðsins.

Carlo Ancelotti stýrði Real Madrid í síðasta sinn í 2-0 sigri á Real Sociedad á Santiago Bernabéu í gær. Hann hefur verið ráðinn þjálfari brasilíska landsliðsins.

Xabi Alonso hætti hjá Bayer Leverkusen á dögunum. Undir hans stjórn varð liðið tvöfaldur meistari í Þýskalandi í fyrra, án þess að tapa leik.

Xabi Alonso skrifaði undir þriggja ára samning við Real Madrid. Hann þekkir vel til hjá félaginu en hann lék með því á árunum 2009-14, alls 236 leiki.

Fyrsta verkefni Xabis Alonso með Real Madrid er heimsmeistarakeppni félagsliða í næsta mánuði. Real Madrid er þar í riðli Al-Hilal frá Sádi-Arabíu, Red Bull Salzburg frá Austurríki og Pachuca frá Mexíkó.

Real Madrid endaði í 2. sæti í deild og bikar í vetur og komst í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×