Körfubolti

Grinda­vík sækir besta leik­mann Hamars/Þórs

Smári Jökull Jónsson skrifar
Abby Beeman er hér með boltann í leik gegn Njarðvík þar sem Emelie Hesseldal er til varnar. Þær munu báðar leika með Grindavík á næstu leiktíð í Bónus-deildinni.
Abby Beeman er hér með boltann í leik gegn Njarðvík þar sem Emelie Hesseldal er til varnar. Þær munu báðar leika með Grindavík á næstu leiktíð í Bónus-deildinni. Vísir/Anton Brink

Lið Grindavíkur í Bónus-deild kvenna heldur áfram að styrkja sig því í kvöld tilkynnti liðið um önnur félagaskiptin á stuttum tíma.

Grindavík tryggði sér þjónustu hinnar dönsku Emelie Hesseldal á dögunum en hún hefur leikið með Njarðvík undanfarin tímabil. 

Í kvöld tilkynntu Grindvíkingar síðan að hin bandaríska Abby Beeman myndi leika með liðinu á næstu leiktíð í Bónus-deildinni en Beeman átti frábært tímabil með Hamri/Þór á síðustu leiktíð.

Hamar/Þór komst ekki í úrslitakeppni deildarinnar en Beeman var engu að síður stoðsendingahæst í deildinni með 9,2 stoðsendingar að meðaltali, var þriðja stigahæst með 26,5 stig að meðaltali og tók 8,5 fráköst þar að auki.

Beeman mun án efa styrkja lið Grindavíkur næsta vetur sem tapaði 3-2 fyrir Íslandsmeisturum Hauka í 8-liða úrslitum Bónus-deildarinnar. Þá komst Grindavík alla leið í úrslit VÍS-bikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×