Fótbolti

Courtois: Trent Alexander-Arnold mar­tröð fyrir mark­verði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gonzalo García fagnar sigurmarki sínu fyrir Real Madrid með því að benda á Trent Alexander-Arnold sem átti stoðsendinguna. 
Gonzalo García fagnar sigurmarki sínu fyrir Real Madrid með því að benda á Trent Alexander-Arnold sem átti stoðsendinguna.  Getty/Qian Jun

Thibaut Courtois, markvörður Real Madrid, er ánægður með enska bakvörðinn Trent Alexander-Arnold á fyrstu vikunum síðan að hann kom til spænska liðsins frá Liverpool.

Alexander-Arnold lagði upp sigurmark Real Madrid á móti Juventus í sextán liða úrslitum heimsmeistaramóts félagsliða.

Real Madrid borgaði tíu milljónir evra fyrir Alexander-Arnold en fékk næstum því jafnmikið í verðlaunafé fyrir að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.

Hann er því að byrja vel í búningi Real Madrid sem mætir Dortmund næst á HM.

„Hann gæti verið búinn að gefa fleiri stoðsendingar í þessari keppni,“ sagði Thibaut Courtois en belgíski markvörðurinn hefur lengi verið með þeim bestu í heimi.

„Það ótrúlegt að sjá spyrnur hans á æfingum. Aukaspyrnur og hornspyrnur hans eru á allt öðru stigi. Ég held að ég hafi aldrei séð áður leikmann með slík gæði í skotum og fyrirgjöfum,“ sagði Courtois.

„Sem markvörður þá sé ég það að oft á tíðum er Trent Alexander-Arnold martröð fyrir markverði. Hann heldur þér á tánum og sér til þess að þú mátt aldrei missa einbeitinguna. Hann sér til þess að við verðum betri,“ sagði Courtois.

Alexander-Arnold er þarna að fá mikið hrós frá einni af stærstu stjörnum Real liðsins sem ætti bara að hjálpa honum enn frekar að stimpla sig inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×