Fótbolti

United boðið að skrapa botninn á tunnunni

Siggeir Ævarsson skrifar
Callum Wilson skoraði núll mörk í 18 deildarleikjum í vetur
Callum Wilson skoraði núll mörk í 18 deildarleikjum í vetur EPA-EFE/PETER POWELL

Eftir mikið vonbrigðatímabil í ensku úrvalsdeildinni hjá Manchester United hefur sumarið heldur ekki verið upp á marga fiska en liðið er aðeins búið að klára ein stór kaup og þá hefur enginn leikmaður verið seldur.

Ruben Amorim, stjóri United, hefur verið mjög afdráttarlaus um að hann vilji losa ákveðna leikmenn úr hópnum en það virðist vera lítið að frétta á þeim bænum en þó virðist Jadon Sancho mögulega þokast nær því að ganga í raðir Juventus.

United leita logandi ljósi að sóknarmanni en liðið skoraði aðeins 44 mörk í deildinni í fyrra. Liðið hefur ítrekað reynt að klára kaup á Bryan Mbeumo frá Brentford en viðræður á milli liðanna sigla ítrekað í strand.

Það er aðeins rúmur mánuður í að enska deildin byrji og stuðningsmenn United eru margir hverjir farnir að ókyrrast og eflaust er eitthvað stress byrjað að gera vart við sig á skrifstofu liðsins. Nýjustu vendingar eru þær að United standi til boða þrír sóknarmenn sem allir eru samningslausir og kæmu þá á frjálsri sölu. Það eru þeir Jamie Vardy, Dominic Calvert-Lewin og Callum Wilson.

Það verður áhugavert að sjá hvort United muni taka sénsinn á einhverjum af þessum leikmönnum en það er ekki beinlínis hægt að segja að þetta séu feitustu bitarnir á markaðnum.

Vardy er 38 ára og skoraði níu mörk á síðasta tímabili fyrir Leicester. Calvert-Lewin skoraði þrjú mörk fyrir Everton og hefur ekki skorað yfir tíu mörk síðan 2020-21 og Callum Wilson skoraði ekki eitt einasta mark í þeim 18 leikjum sem hann spilaði fyrir Newcastle í fyrra.

Nýjustu fréttir af Mbeumo gætu þó gefið United mönnum ástæðu til bjartsýni en það er ekkert fast í hendi enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×