Veður

Reyk­víkingar fengu loksins tuttugu gráður

Agnar Már Másson skrifar
Þessir ferðamenn voru sennilega ekki að elta sólina þegar þeir lögðu sér leið til Íslands. Sú gula lét þó sjá sig.
Þessir ferðamenn voru sennilega ekki að elta sólina þegar þeir lögðu sér leið til Íslands. Sú gula lét þó sjá sig. Visir/Lýður

Í fyrsta sinn í sumar náði hitinn 20 stigum í Reykjavík, en mestur var hitinn þó á Hjarðarlandi. Hitamet voru slegin víða um land og sums staðar var átta stiga munur á milli nýja metinu og því fyrra. Á morgun verður hitinn á bilinu 17 til 28 stig, hlýjast norðaustanlands en svalara þar sem þokan nær inn.

Fáheyrð hitabylgja hefur leikið við landsmenn um nánast allt land í dag og hitamet féllu á fjölmörgum veðurstöðvum. 

Í Reykjavík fór hitinn í fyrsta sinn á þessu ári yfir 20 gráður þegar hitinn mældist 20,8 á Veðurstofuhæð, að því er stofnunin greinir frá.  Hitin náði ekki slíkum hæðum í höfuðborginni fyrrasumar, sem var það kaldasta í rúmlega þrjátíu ár, en sumarið 2024 var meðalhitinn þar 9,1 stig. Hitinn náði reyndar 20 gráðum árið 2023.

En þær rúmu tuttugu gráður eiga ekki í roð í mesta hita dagsins, sem mældist um 29,5 stig á Hjarðarlandi, sem er nýtt staðarmet.

Víða um land fór hitinn yfir 26–27°C og dagshitamet féllu á fjölmörgum veðurstöðvum. Á stöðum eins og Þingvöllum, Skálholti, Kálfhóli og Bræðratunguvegi mældist hitinn yfir 28°C, sem er óvenjulegt jafnvel að sumri og er til marks um hve mikil hlýindi voru í dag.

Hitinn fór yfir 28 stig á eftirfarandi stöðvum:

  • Hjarðarland: 29,5°C (staðarmet)
  • Bræðratunguvegur: 28,7°C
  • Lyngdalsheiði: 28,3°C
  • Skálholt: 28,3°C
  • Kálfhóll: 28,0°C

Auk þess fór hitinn yfir 27°C á stöðum eins og Þingvöllum, Mörk á Landi, Öræfum og Ásbyrgi og dagshitamet féllu þar einnig. 

Athygli vekur að á mörgum stöðvum var munurinn á nýju meti og fyrra meti óvenju mikill, sums staðar yfir 8°C. Slík stökk eru sjaldséð og sýna vel hve hlýtt var í dag.

Áfram má búast við hægviðri eða hafgolu. Víða verður bjart eða léttskýjað, en þokubakkar gætu leitað að norður- og norðvesturströndinni. Síðdegis má reikna með stöku skúrum sunnanlands.

Hiti verður á bilinu 17 til 28 stig, hlýjast norðaustanlands en svalara þar sem þokan nær inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×