Golf

„Það hafa allir runnið í gegnum þessa lokunarpósta án vand­ræða“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Helgi segir kylfinga ekki hafa neitt að óttast á Golfvelli Grindavíkur.
Helgi segir kylfinga ekki hafa neitt að óttast á Golfvelli Grindavíkur. skjáskot

Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur, segir kjöraðstæður á golfvelli bæjarins þar sem meistaramót hófst í dag, degi á eftir áætlun. Enn eitt eldgosið hafi engin áhrif enda völlurinn ekki lengur á hættusvæði. Kylfingar lentu ekki í neinum vandræðum þrátt fyrir að vegurinn að vellinum sé lokaður. 

„Við erum með mót hérna í dag, föstudag og laugardag. Við þurftum að slaufa fyrsta deginum út af nýjasta eldgosinu en eins og þið sjáið þá lítur þetta vel út. Kjöraðstæður, fullt af fólki að spila, þetta gæti bara ekki verið betra“ segir Helgi.

„Þetta hefur lítil sem engin áhrif á okkur. Við erum ekki á neinu hættusvæði þannig að það er bara bjart framundan. Búið að vera rosalega gott sumar, frábært veður, gríðarlega mikil aðsókn að vellinum og fjölgun í klúbbnum. Við gætum ekki verið glaðari“ hélt hann svo áfram.

Vegurinn að golfvellinum í Grindavík er lokaður öllum sem ekki búa í bænum, það hefur engin áhrif á meistaramótið en gæti valdið vandræðum þegar mótið klárast og venjuleg vallarstarfsemi hefst aftur opin öllum.

„Nú eru þetta bara heimamenn sem eru að spila og það hafa allir runnið í gegnum þessa lokunarpósta án vandræða. En við verðum að sjá bara hvernig sunnudagurinn verður ef þeir halda áfram, en vonandi taka þeir bara þessa lokunarpósta og þá geta allir heimsótt okkur án vandræða.“

Golfvöllurinn sjálfur er hins vegar ekki lokaður og fólk gæti því farið lengri leiðina, hringinn í kringum Reykjanesið.

„Já það er vel hægt, enginn lokunarpóstur þá leiðina en það er aukatími sem ég veit ekki hvort fólk er tilbúið að leggja á sig. Það er mjög skemmtileg leið, ég fer hana oft sjálfur því ég bý í Reykjanesbæ. Ég hvet fólk sem vill heimsækja okkur að fara þá leið, annað hvort á heimleiðinni eða þegar þau eru að koma.“

Helgi segir kylfinga því ekki þurfa að hætta við komur sínar á golfvöllinn í Grindavík.

„Alls ekki, við verðum hérna brosandi og tókum á móti öllum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×