Fótbolti

Ætlar að vera lengi hjá Spurs: „Ég hef aldrei verið rekinn“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thomas Frank stýrði Tottenham í fyrsta skipti í dag í 2-0 sigri gegn Reading.
Thomas Frank stýrði Tottenham í fyrsta skipti í dag í 2-0 sigri gegn Reading. Jacques Feeney/Offside/Offside via Getty Images

Að vera knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur hefur ekki beint veitt mönnum atvinnuöryggi á síðustu árum. Thomas Frank segist þó ætla að vera lengi í þessu nýja starfi sínu.

Frank tók við sem nýr knattspyrnustjóri Spurs í sumar eftir að Ange Postecoglou var látinn taka poka sinn. Postecoglou stýrði liðinu til sigurs í Evrópudeildinni í vor, en það var fyrsti titill félagsins í 17 ár. Það reyndist þó ekki nóg til að tryggja Ástralanum áframhaldandi vinnu hjá félaginu.

Frank gerir sér grein fyrir því að starfinu fylgi ákveðin áhætta, en hann segist þó ætla að vera við stjórnvölin lengi. Á blaðamannafundi fyrir æfingaleik liðsins gegn Reading í dag grínaðist hann svo með það að hann hafi tekið starfinu til að bæta smá spennu í sitt daglega líf.

„Það er alltaf pressa þegar maður tekur við stóru félagi,“ sagði Daninn á fundinum í dag.

„Ég er hrifinn af metnaðinum og allt sem ég geri, allar ákvarðanir sem ég tek, eru til lengri tíma. Þetta snúst ekki um að lifa af í 18 mánuði, þetta snýst um lengri tíma.“

„Ég hef aldrei verið rekinn,“ bætti Frank svo léttur við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×