Íslenski boltinn

Spilaði með KV í gær en má spila með KR í dag

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Birgir Steinn gæti spilað fjóra leiki á ellefu dögum með tveimur mismunandi félögum.
Birgir Steinn gæti spilað fjóra leiki á ellefu dögum með tveimur mismunandi félögum. KV

KR og KV brjóta engar reglur með því að skipta Birgi Steini Styrmissyni milli félaganna tvisvar á tveimur vikum. Félagaskiptagluggi neðri deildanna er ekki sá sami og hjá Bestu deildinni. Birgir er löglegur í leikmannahóp KR gegn Breiðablik á eftir, þrátt fyrir að hafa spilað með KV í gærkvöldi.

Birgir Steinn skipti úr KR í KV þann 16. júlí. Hann hefur verið meiddur mikið í sumar og spilaði þrjá leiki með KV í þriðju deildinni til að koma sér í form. Þann síðasta í gærkvöldi en Birgir var í byrjunarliði KV í 4-4 jafntefli gegn Augnablik.

Hann skipti svo aftur úr KV í KR eftir leikinn í gærkvöldi og fékk leikheimild skráða í dag, 26. júlí.

„Eru þessi skipti lögleg?“ spyr Þórður Einarsson, yfirþjálfari hjá Þrótti og formaður þjálfaranefndar KSÍ, á samfélagsmiðlinum X.

„Skil ekkert, hélt líka að ekki væri hægt að kalla til baka fyrr en í næsta glugga“ skrifar Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, við færsluna.

Skiptin eru lögleg vegna þess að félagaskiptagluggar neðri deilda og efri deilda eru ekki þeir sömu.

Félagaskiptagluggi neðri deilda er opinn frá 5. febrúar til 31. júlí en sumarfélagaskiptagluggi Bestu deildarinnar er opinn frá 17. júlí til 13. ágúst.

Birgir Steinn skipti úr KR í KV þann 16. júlí, í neðri deilda glugganum.

Hann skipti svo aftur til baka, úr KV í KR, þegar Bestu deildar glugginn var opinn.

Félagaskiptin flokkast því í sitt hvoran félagaskiptagluggann og eru ekki ólögleg en þetta staðfesti Guðni Þór Einarsson, starfsmaður á innanlandssviði KSÍ sem sér um mótamál, félagaskipti og leikmannasamninga.

Birgir Steinn verður löglegur leikmaður KR þegar liðið mætir Breiðablik á Meistaravöllum á eftir. Það yrði þá hans fjórði leikur á ellefu dögum, fyrir tvö mismunandi félög. 

Leikurinn hefst klukkan fimm og verður í beinni útsendingu á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×