Fótbolti

Aflýstu æfinga­ferð eftir hræði­legar fréttir að heiman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthias Verreth fékk hræðilegar fréttir að heiman. 
Matthias Verreth fékk hræðilegar fréttir að heiman.  Getty/Image Photo Agency

Ítalska fótboltafélagið Bari tók þá ákvörðun að aflýsa æfingaferð liðsins sem var í fullum gangi til að undirbúa liðið fyrir komandi leiktíð.

Ástæðan eru hræðilegar fréttir að heiman en belgíski miðjumaðurinn Matthias Verreth var að missa eins árs son sinn.

„Við eigum erfitt með að finna réttu orðin til að segja frá þessum hörmulegum fréttum en þetta er mikið áfall fyrir alla hjá félaginu,“ skrifaði Bari á miðla sína.

Sonur Verreth hét Elliot Charles og var aðeins fjórtán mánaða gamall. Elliot var lagður inn á sjúkrahús tveimur dögum fyrir andlát hans með einkenni veirusýkingar. Allt fór á versta veg og hann lést.

Luigi De Laurentiis, forseti Bari, sendi leikmanninum og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur og sagði: „Þetta er eitt það hræðilegasta augnablik sem foreldrar og hver einasta manneskja getur upplifað. Að missa barn svona óvænt,“ segir De Laurentiis.

Bari kom heim úr æfingaferðinni í gær. Sú ákvörðun var tekin af virðingu við Verreth og fjölskyldu hans. Bari frestaði einnig æfingarleik við Cavese.

Matthias Verreth er 27 ára gamall og nýkominn til félagsins frá Brescia þar sem hann var liðsfélagi Birkis Bjarnasonar. Verreth skrifaði undir þriggja ára samning við Bari 16. júlí síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×