Innlent

Læti í mið­bænum og í veðrinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar höfðu í nógu að snúast í nótt.
Lögregluþjónar höfðu í nógu að snúast í nótt. Vísir/Sammi

Níu gistu í fangageymslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina en alls voru 75 mál skráð í kerfi lögreglunnar frá fimm í gærdag til fimm í morgun. Flest þeirra virðast hafa tengst skemmtanalífinu og veðrinu.

Sérstaklega mikið virðist hafa verið um að gera á lögreglustöð 1, sem sér um Austurbæ, Miðbæinn, Vesturbæ og Seltjarnarnes.

Tveir voru handteknir eftir að tilkynnt var að þeir væru að stela á hóteli í Reykjavík. Þeir voru mikið ölvaðir, samkvæmt dagbók lögreglunnar, og handteknir í kjölfarið. Í öðru tilfelli barst tilkynning um mann sem lét illa í sameign húss og olli þar skemmdum. Hann var einnig handtekinn.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um hóp manna með ólæti á skemmtistað í miðbænum, um fáklæddan mann að bera sig á almannafæri, um kerru sem fauk á bíl, skilti sem var að fjúka, mann sem datt og hlaut skurð á höfði, ölvaða og illa áttaða konu og um mann sem féll af hlaupahjóli.

Einnig var tilkynnt um mann sem olli skemmdum á skemmtistað en hann var mikið ölvaður og vistaður í fangaklefa. Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð vegna ofurölvi stúlku og tilkynnt var um innbrot í heimahús.

Tvær tilkynningar bárust til lögreglunnar í nótt um að þakplötur væru að fjúka af húsum. Einnig barst tilkynning um grindverk sem var að fjúka og vinnupalla. Þá kviknaði eldur í einum bíl.

Einn maður var handtekinn eftir að hann hafði ekið út af veginum og ekið niður ljósastaur. Sá reyndist undir áhrifum áfengis. Annar var kærður fyrir að aka á gangstétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×