Enski boltinn

Lyfta fólki upp til að skrifa á Jota minningarvegginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir hafa skrifað á minningarvegg um Diogo Jota en nú er búið að búa til meira pláss fyrir kveðjur.
Margir hafa skrifað á minningarvegg um Diogo Jota en nú er búið að búa til meira pláss fyrir kveðjur. Getty/Craig Foy/@theredmentv

Stuðningsfólk Liverpool hefur minnst portúgalska knattspyrnumannsins Diogo Jota með margs konar hætti síðustu vikur og félagið hefur tekið númerið tuttugu úr umferð. Hann fær líka varanlegan helgan stað í nágrenni heimavallar Liverpool liðsins.

Eitt af því áhrifamesta í nágrenni Anfield er nú stór og glæsileg veggmynd af Jota. Minningarveggurinn um Jota er staðsettur rétt hjá Anfield og hann er enn í vinnslu.

Eftir að Jota lést í bílslysi ásamt bróður sínum þá var ákveðið að taka þennan vegg frá fyrir málaða mynd af Jota. Margar goðsagnir í sögu Liverpool eiga sinn vegg í nágrenni leikvangsins.

Fljótlega fór fólk að koma á staðinn og skrifa minningarorð um Jota á vegginn. Svo mikil var aðsóknin að neðri hluti veggjarins fylltist fljótt með minningarorðum.

Stefnan var síðan sett að mála stóra mynd af Jota fyrir ofan. Myndin af Jota er nú komin á vegginn en það er enn pláss í kringum hann.

Þeir sem standa á bak við þennan minningarvegg um Jota ætla því að halda áfram að safna minningarorðum.

Til þess að fólk nái ofar á vegginn hafa þeir tekið í notkun lyftara sem lyftir fólki upp til að skrifa á Jota minningarvegginn eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×