Fótbolti

Brøndby náði í sigur heima­fyrir

Árni Jóhannsson skrifar
Víkingur - Brondby Sambandsdeild karla Sumar 2025
Víkingur - Brondby Sambandsdeild karla Sumar 2025 Vísir / Diego

Brøndby, sem var niðurlægt í Víkinni vikunni, náði í sigur í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Liðið lagði Vejle 2-1 á heimavelli og jafnaði FC Kaupmannahöfn að stigum í deildinni.

Mikið hafði verið ritað og rætt í dönskum fjölmiðlum um hvað niðurlægingin hafði verið mikil hjá Brøndby, bæði innan vallar sem utan og því fróðlegt að sjá hvernig danska liðið myndi bregðast við í deildarleiknum sem spilaður var í dag. Brøndby stóðst pressuna og vann leikinn eftir að hafa verið komið í 2-0 eftir 22. mínútur.

Nicolai Vallys kom heimamönnum í Brøndby yfir á níundu mínútu og Englendingurinn Luis Binks tvöfaldaði forskotið á 22. mínútu. Vejle minnkaði muninn sjö mínútum seinna en lengra komst Vejle ekki og Brøndby sigldi sigrinum heim sem líklega hefði getað orðið stærri.

Eitt af því sem spáð hafði verið í var að ef leikurinn í dag myndi tapast þá yrði það síðasti leikur Frederik Brik með Brøndby. Brik verður því enn líklega þjálfari liðsins þegar þeir taka á móti Víkingum á fimmtudaginn næsta á Brøndby Stadion. Það er hinsvegar aldrei að vita að þessi sigur sé skammgóður vermir ef Brøndby nær ekki að snúa einvíginu við en Víkingur leiðir 3-0 eftir fyrri leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×