Innlent

Segir dæmi um að fjöl­skyldur hafi lokað á fólk vegna BDSM

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Katrín Íris Sigurðardóttir er formaður BDSM á Íslandi.
Katrín Íris Sigurðardóttir er formaður BDSM á Íslandi. Vísir/Einar

Formaður BDSM samtakanna á Íslandi segir dæmi um að fólki sé útskúfað af fjölskyldu og vinum þegar það opni sig um hneigðina. Árlega spinnist umræður um hvort BDSM fólk eigi heima í Gleðigöngunni.

Í gærmorgun birtist grein á Vísi, þar sem formaður BDSM á Íslandi sagði að ár hvert kæmi upp spurning um hvort BDSM-fólk ætti heima í Gleðigöngunni, en hún var gengin um liðna helgi. BDSM fólk gekk í göngunni, og hafa aldrei fleiri verið hluti af gönguhóp félagsins en í ár. Formaðurinn segir viðbrögðin árlega vera á sömu leið, uppfull af vanþekkingu og fordómum.

„Þannig í raun og veru voru skilaboðin mín bara einfaldlega það að þetta er miklu margslungnara fyrirbæri, BDSM-iðkun, en við fyrstu sýn virðist vera,“ segir Katrín Íris Sigurðardóttir, formaður BDSM á Íslandi.

Margt fólk stofni ekki til náinna sambanda án þess að einhvers konar BDSM-dýnamík komi við sögu.

„BDSM brýtur upp normið á alla þá vegu sem þarf til að geta flokkast sem hinsegin. Það hefur bara tekið svolítið lengri tíma fyrir okkur sem samfélag að sjá það.

BDSM á Íslandi fékk hagsmunaaðild að samtökunum '78 árið 2016, en sú ákvörðun reyndist afar umdeild.

„Þá er vandamálið svolítið það að við flokkumst ekki sem nógu hinsegin.“

Fordómar hafi fram að þessu aukist, samhliða auknum sýnileika.

„Hluti af því að normalísera eitthvað er svolítið að ögra fólkinu sem mislíkar það. Þannig að við erum svolítið að finna fyrir auknum fordómum og erum að vinda ofan af því. Ég held að lykillinn að því sé í raun og veru bara fræðsla og meiri sýnileiki.“

Fólk fái oft að heyra að BDSM sé ofbeldi, og geti ekki haldist í hendur við heilbrigð sambönd. Það sé þrálátur misskilningur, en margt fólk veigri sér við að opna sig um BDSM-iðkun sína.

„Ég held það sé bara að það fylgir því gríðarlega mikil skömm, og fólk hefur verið útilokað frá vinum og fjölskyldu því fólki er bara svolítið misboðið,“ segir Katrín Íris.

„Við göngum út á það að við stundum BDSM sem er öruggt, samþykkt, meðvitað. Það er ekki BDSM ef það er ekki öruggt, samþykkt, meðvitað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×