Enski boltinn

Leik U21 liðs Man United hætt vegna meiðsla leik­manns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugað að Sékou Koné á vellinum í gær og hann í leik með unglingaliði Manchester United.
Hugað að Sékou Koné á vellinum í gær og hann í leik með unglingaliði Manchester United. X/Instagram/@sekou_kone6

Leik hjá 21 árs liði Manchester United í gær var hætt eftir að miðjumaðurinn Sékou Koné meiddist.

United liðið mætti þarna Tamworth í deildabikarleik og fór hann fram á Lamb Ground sem er heimavöllur Tamworth. Varalið félaganna mega taka þátt í National League Cup.

Hinn nítján ára gamli Koné lá eftir að hafa fengið höfuðhögg í skallaeinvígi þar sem hann var að verjast hornspyrnu. 

Koné ætlaði að skalla boltann frá markinu þegar hann fékk slæmt högg og steinlá í grasinu.

Hugað var að Koné á vellinum í fimmtán mínútur og hann var borinn af velli á börum. Það var síðan flautað til hálfleiks og seinna síðan tilkynnt að leiknum væru aflýst en staðan í honum var markalaus.

Manchester United gaf seinna frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að líðan Koné væri stöðug, hann væri með meðvitund og gæti tjáð sig við læknalið United.

Hann fór á sjúkrahúsið til að gangast undir frekari rannsóknir til að fullvissa alla um að það væri í lagi með hann.

Koné á enn eftir að spila fyrir aðallið Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×