Enski boltinn

Brentford að slá félagaskiptametið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dango Ouattara er á förum frá Bournemouth.
Dango Ouattara er á förum frá Bournemouth. epa/SARAH YENESEL

Brentford hefur komist að samkomulagi við Bournemouth um kaup á framherjanum Dango Ouattara.

Brentford hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku í sumar. Knattspyrnustjórinn Thomas Frank fór til Tottenham, fyrirliðinn Christian Nørgaard til Arsenal og markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili, Bryan Mbuemo, gekk í raðir Manchester United. Þá er næstmarkahæsti leikmaðurinn, Yoane Wissa, væntanlega á leið frá Brentford.

Ouattara var ekki fastamaður hjá Bournemouth á síðasta tímabili en skoraði samt níu mörk í öllum keppnum.

Hinn 23 ára Ouattara, sem er landsliðsmaður Búrkina Fasó, kom til Bournemouth frá Lorient fyrir tveimur árum. Talið er að Brentford greiði 42,5 milljónir punda fyrir Ouattara. Það gerir hann að dýrasta leikmanni í sögu Brentford.

Koma hans eykur væntanlega líkurnar á að Wissa fari til Newcastle United sem hefur mikinn áhuga á kóngólska framherjanum. Keith Andrews, stjóri Brentford, hefur sagt að Wissa muni ekki spila gegn Nottingham Forest í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Brentford endaði í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×