Enski boltinn

Fernandes við Hjör­var: „Mis­tök okkar allra“

Sindri Sverrisson skrifar
Bruno Fernandes varð að sætta sig við tap í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.
Bruno Fernandes varð að sætta sig við tap í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Sýn Sport

Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, var skiljanlega niðurlútur þegar hann ræddi við Hjörvar Hafliðason á Sýn Sport eftir 1-0 tapið gegn Arsenal í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.

Eina mark leiksins skoraði Riccardo Calafiori snemma leiks, úr hornspyrnu. Nýju mennirnir hjá United, Bryan Meumo og Matheus Cunha, voru nokkuð líflegir fram á við en liðinu tókst þó aldrei að skora og var Fernandes spurður út í það:

„Okkur tókst ekki að skora. Við sköpuðum einhver færi og fengum góð færi til að skora en því miður fyrir okkur þá tókst ekki að skora mark í dag,“ sagði Portúgalinn en viðtalið má sjá hér að neðan.

Klippa: Fernandes í viðtali við Hjörvar

Mark Arsenal skrifast að flestra mati á Altay Bayindir sem stóð í marki United í dag en hann lét hindra sig í að ná að kýla boltann. Hvernig er að fá á sig mark eftir svona slæm einstaklingsmistök?

„Þegar maður fær á sig mark þá eru það ekki einstaklingsmistök heldur eru það mistök okkar allra. Það eiga allir þátt í þessu. Það taka allir sína ábyrgð á markinu og ekki meira um það að segja,“ sagði Fernandes og vildi ekki skella skuldinni á Byaindir.

Hann vildi ekki heldur setja út á leikaðferð Rúben Amorim þó að 3-4-3 kerfi hans hafi hingað til engan veginn virst virka fyrir United í úrvalsdeildinni:

„Chelsea vann deildina með þessum hætti undir stjórn Conte, svo ég held að þetta virki,“ sagði Fernandes stuttorður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×