Enski boltinn

Forest fær nýjan markahrók

Sindri Sverrisson skrifar
Arnaud Kalimuendo er mættur í búning Nottingham Forest.
Arnaud Kalimuendo er mættur í búning Nottingham Forest. Nottingham Forest

Samkeppnin í fremstu víglínu hjá Nottingham Forest hefur snaraukist eftir að félagið festi kaup á franska markahróknum Arnaud Kalimuendo frá Rennes fyrir 31,5 milljón evra.

Kalimuendo, sem er 23 ára, kemur til Forest eftir að hafa skorað 18 mörk fyrir Rennes þegar liðið endaði í 12. sæti frönsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð. 

Forest hafði áður keypt Igor Jesus frá Botafogo og byrðarnar verða því kannski ekki þær sömu á herðum Chris Wood eins og á síðustu leiktíð, þegar hann skoraði tuttugu mörk.

Kalimuendo hóf ferilinn sinn hjá PSG en hefur skorað 42 mörk í 105 leikjum fyrir Rennes eftir að hann kom til félagsins árið 2022. 

Hann vann silfur með Frökkum á Ólympíuleikunum í fyrra og á að baki fjölda leikja fyrir yngri landslið Frakka en bíður eftir fyrsta tækifærinu í A-landsliðinu.

Woods skoraði tvö mörk í gær þegar Forest hóf nýja leiktíð í ensku úrvalsdeildinni á 3-1 sigri gegn Brentford. Liðið mun einnig leika í Evrópudeildinni eftir að hafa fengið sæti Crystal Palace sem var dæmt niður í Sambandsdeildina til að eigandi ætti ekki tvö lið í sömu keppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×