Fótbolti

Ronaldo sýndi mikla ó­eigin­girni og nú er bikar í boði í næsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo gæti unnið bikar með Al Nassr á laugardaginn kemur.
Cristiano Ronaldo gæti unnið bikar með Al Nassr á laugardaginn kemur. Getty/Yasser Bakhsh/

Cristiano Ronaldo og félagar í Al Nassr tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleik Ofurbikarsins í Sádi-Arabíu eftir 2-1 sigur á Al Ittihad í undanúrslitaleiknum.

Þetta var karaktersigur hjá Al Nassr liðinu því það missti Sadio Mané af velli með rautt spjald strax á 25. mínútu leiksins.

Sadio Mané hafði komið Al Nassr í 1-0 á tíundu mínútu en Steven Bergwijn jafnaði fyrir sex mínútum síðar.

Staðan var því 1-1 þegar Mané fékk beint rautt spjald fyrir að trampa á andstæðingi.

Þannig var stað þar til á 61. mínútu þegar Cristiano Ronaldo slapp einn í gegnum vörnina. Í stað þess að skjóta sjálfur þá sýndi Ronaldo mikla óeigingirni og gaf boltann til hliðar á landa sinn Joao Félix sem skoraði í tómt markið.

Þetta var fyrsta mark Joao Félix fyrir Al Nassr en hann var keyptur á dögunum og Ronaldo sendi þá einkaflugvél sína til að ná í hann.

Ronaldo vildi greinilega hjálpa stráknum að komast í gang.

Ronaldo beið spenntur við hlið dómarans þar til að myndbandsdómarar fóru yfir það hvort annar hvort þeirra hafi verið rangstæður. Það var ekki og Ronaldo fagnaði markinu eins og hann hefði skorað það sjálfur.

Úrslitaleikurinn fer fram á laugardaginn þar sem mótherjinn verður annað hvort Al-Qasidah eða Al-Ahli.

Al-Nassr komst líka í úrslitaleik Ofurbikarsins í fyrra en tapaði þá 4-1.

Ronaldo er búinn að bíða lengi eftir öðrum titli með Al-Nassr og nú er bikar í boði í næsta leik. Eini titil hans í Sádi-Arabíu kom í Meistaradeild Arbíu 2023 en það telst ekki sem stór bikar.

Hér fyrir neðan má sjá sigurmarkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×