Enski boltinn

Völdu Mo Salah bestan en Chris Wood frekar en Haaland í lið ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah með verðlaun sín í kvöld.
Mohamed Salah með verðlaun sín í kvöld. @PFA

Mohamed Salah var valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld af leikmönnum deildarinnar og er sá fyrsti til að vinna þau verðlaun þrisvar sinnum á ferlinum.

Salah átti stórkostlegt tímabil, var bæði markahæstur (34 mörk) og stoðsendingahæstur (23) og vann deildina með Liverpool. Þetta var því væntanlega ekki mjög erfitt val. Egyptinn fékk líka þessi eftirsóttu verðlaun fyrir 2017-18 og 2021-22 tímabilin.

Það eru leikmannasamtökin sem standa á bak við valið og því leikmennirnir sjálfir sem kjósa. 

Norski framherjinn Erling Braut Haaland var ekki valinn í lið ársins í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Englandsmeistarar Liverpool og silfurlið Arsenal eiga flesta leikmenn í úrvalsliðinu, Liverpool fjóra en Arsenal þrjá.

Athygli vekur að Chris Wood, framherji Nottingham Forest, er valinn í liðið frekar en Haaland. Haalandi skoraði 22 mörk á síðustu leiktíð en Wood tuttugu.

Liverpool mennirnir Mohamed Salah, Alexis Mac Allister, Virgil van Dijk og Ryan Gravenberch voru valdir í liðið en frá Arsenal eru í liðinu William Saliba, Gabriel Magalhães og Declan Rice.

Nottingham Forest á tvo leikmenn i liðinu því auk Wood þá var Matz Sels valinn í markið. Newcastle og Bournemouth áttu bæði einn leikmann í liðinu. Liverpool er búið að kaupa annan (Milos Kerkez) og að reyna að kaupa hinn (Alexander Isak).

Spænski leikmaðurinn Mariona Caldentey hjá Arsenal var valin best hjá konunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×