Enski boltinn

„Skil­yrði fé­lagsins fyrir sölu hafa ekki verið upp­fyllt“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alexander Isak vill fara frá Newcastle en félagið vill ákveðin skilyrði uppfyllt. 
Alexander Isak vill fara frá Newcastle en félagið vill ákveðin skilyrði uppfyllt.  Joe Prior/Visionhaus via Getty Images)

Newcastle brást við í gærkvöldi eftir að Alexander Isak sagði félagið hafa svikið loforð. Í yfirlýsingu Newcastle segir að Isak sé samningsbundinn og engin loforð hafi verið gefin um að hann mætti fara frá félaginu í sumar, en þar er einnig gefið í skyn að Isak geti farið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Isak var markahæsti leikmaður Newcastle á síðasta tímabili en hefur ekki tekið þátt í æfingaleikjum liðsins á undirbúningstímabilinu og er sagður vilja fara til Liverpool, sem hefur boðið í hann en tilboðinu var hafnað.

Hann tjáði sig sjálfur um málið í fyrsta sinn í gærkvöldi og sagði Newcastle hafa svikið loforð, hann hafi látið vita fyrir löngu að hann vildi fara, traustið sé ekki lengur til staðar og þá sé ekki hægt að halda sambandinu áfram.

Newcastle brást við með eigin yfirlýsingu. Þar er ekki tekið fram að Isak sé ekki til sölu heldur segir félagið að skilyrðin fyrir sölu hafi ekki verið uppfyllt.

Óvíst er auðvitað hver þau skilyrði eru en talið er að Newcastle vilji meiri pening frá Liverpool og mögulega vilji Newcastle finna afleysingu fyrir Isak áður en hann er seldur.

Alexander Isak hefur ekki æft með Newcastle á undirbúningstímabilinu. Charlotte Wilson/Offside/Offside via Getty Images

Yfirlýsingu Newcastle í heild sinni má lesa hér fyrir neðan. 

„Við urðum fyrir vonbrigðum þegar við sáum skrif Alexanders Isak á samfélagsmiðlum í [gær]kvöld. Við viljum vera skýr í okkar afstöðu að Alex er samningsbundinn og engin loforð hafa verið gefin af stjórnarmönnum um að hann mætti fara frá félaginu í sumar.

Við viljum halda í okkar bestu leikmenn, en við skiljum líka að leikmenn hafa sínar eigin skoðanir og við hlustum á þeirra sjónarmið. Eins og við útskýrðum fyrir Alex og hans teymi, verðum við að taka ákvarðanir með hagsmuni Newcastle United að leiðarljósi, hagsmunir liðsins og stuðningsmanna eru okkur efst í huga í öllum ákvörðunum og við höfum verið skýr með það að skilyrði félagsins fyrir sölu hafa ekki verið uppfyllt.

Við sjáum ekki fram á að þau skilyrði verði uppfyllt.

Þetta er stolt félag sem á sér ríka sögu og við viljum halda í fjölskyldubraginn. Alex er áfram hluti af okkar fjölskyldu og verður velkominn aftur þegar hann er tilbúinn til að mæta aftur til móts við liðsfélaga sína“ segir í yfirlýsingu Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×